146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fjármögnun jarðganga undir Vaðlaheiði. Í frumvarpinu er lagt til að lánveiting úr ríkissjóði verði aukin um 4,7 milljarða kr. svo hægt verði að ljúka gerð þeirra og þau geti komist í notkun sem fyrst. Frumvarpið sjálft lætur lítið yfir sér. Eingöngu eru gerðar breytingar á tveimur atriðum í 1. mgr. 1. gr. laganna sem gilda um lánveitingu ríkisins til gangagerðarinnar, þ.e. að fjárhæðin verði aukin í allt að 14,4 milljarða kr. og að fjárhæðin miðist við verðlag í lok árs 2016. Lögin eru óbreytt að öllu öðru leyti.

Eins og kunnugt er var það vilji þáverandi stjórnvalda og meiri hluta Alþingis að standa að fjármögnun umræddra jarðganga undir Vaðlaheiði fyrir um fimm árum. Þessi vilji kemur t.d. fram í heiti núgildandi laga sem er lög um heimild til handa ráðherra f.h. ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

Einnig liggur fyrir að erfið jarðlög hafa, ásamt innrennsli á heitu og köldu vatni á verktíma ganganna, valdið umtalsverðum ófyrirséðum töfum og aukaverkum við framkvæmdina með tilheyrandi kostnaði. Nú stefnir í að framkvæmdin fari um 44% fram úr kostnaðaráætlun og tefjist um tvö ár, þannig að göngin verði opnuð seinni hluta árs 2018. Á móti vegur að umferð á svæðinu hefur aukist meira en gert var ráð fyrir í upphaflegri greiningu fyrir verkefnið. Því eru allar líkur á að framtíðartekjur verði meiri en kostnaðaraukinn. Þá náðist gegnumslag í göngunum 28. apríl sl. og þar með er stærsta óvissuþætti framkvæmdarinnar eytt og kostnaður við framkvæmdina hér eftir mun fyrirsjáanlegri.

Í þeirri stöðu sem nú er uppi eru engir góðir kostir en best er að ljúka gerð ganganna þrátt fyrir þau áföll sem upp hafa komið. Sú fyrirætlan með upphaflegu lánveitingunni að Akureyri og Húsavík geti með tilkomu ganganna komist nálægt því að mynda eitt atvinnu- og búsvæði er enn í fullu gildi. Í því felst að aksturstími mun minnka og öryggi í ferðum milli Akureyrar og Húsavíkur eykst til mikilla muna og reyndar til alls svæðisins í Þingeyjarsýslum.

Ríkið er eini lánveitandi og langstærsti fjármögnunaraðili gangagerðarinnar. Göngin munu renna til ríkisins án endurgjalds þegar kostnaður við byggingu þeirra er að fullu uppgreiddur. Því liggur fyrir að ríkið á langstærsta hagsmuni í því að göngin verði kláruð og innheimta veggjalda hefjist sem fyrst svo hægt verði að afla tekna til að greiða niður framkvæmdalánið.

Eftir gegnumslagið á eftir að klára vinnu við frágang ganganna og tengivega ásamt öðru sem slíkum göngum fylgir. Samningar eru í gildi um alla þessa þætti. Ólíklegt er að hægt verði með öðrum hætti en þeirri lánveitingu sem lögð er til í frumvarpi þessu að fá hagstæðari verksamninga á skömmum tíma til að unnt sé að ljúka verkefninu og koma göngunum í not og að afla tekna.

Ýmislegt má læra af þessari framkvæmd. Því hefur ríkisstjórnin ákveðið að gerð verði ítarleg úttekt á framkvæmdinni allri og ástæðum þess að kostnaður við hana hefur verið svo langt umfram áætlanir. Hafin er vinna við umrædda úttekt og gert ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir fljótlega.

Þá er vert að geta þess að stefnt er að endurfjármögnun framkvæmdalána ríkisins eftir að búið er að opna göngin og reka þau í þrjú ár. Ef endurfjármögnun reynist erfiðleikum háð á þeim tíma, án ríkisábyrgðar, gæti ríkið þó þurft að vera lánveitandi félagsins til framtíðar. Rétt er að geta þess að í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs um viðbótarlánveitingu til félagsins kemst sjóðurinn að þeirri niðurstöðu að úr því sem komið er ætti að samþykkja viðbótarlán það sem um getur í frumvarpi þessu því að yfirgnæfandi líkur séu á því að tekjur af göngunum verði talsvert meiri en þeir 4,7 milljarðar kr. sem nú er lagt til að lánaðir verði. Ef verkið stöðvast nú fást að sjálfsögðu engar tekjur á móti þeim lánum sem þegar hafa verið veitt.

Í ljósi þess sem hér hefur komið fram er það mat fjármála- og efnahagsráðherra að hagfelldast sé fyrir ríkið að verkefninu verði lokið. Enn fremur að með því að samþykkja frumvarpið sem hér um ræðir sé verið að forða ríkinu frá tjóni sem skapast mun af því að ekki verði lokið við gerð ganganna sem og að auka þau tækifæri sem samfélagið á Norðurlandi geti nýtt til frekari samfélagsuppbyggingar eftir að göng undir Vaðlaheiði verða opnuð.

Virðulegi forseti. Að því sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.