146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:26]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því svo sem að hér sé komið inn frumvarp sem snýr að því að koma mikilvægri samgöngubót áfram. Allar samgöngubætur eru þjóðhagslega hagkvæmar á sinn hátt, eins og hæstv. ráðherra lýsti í máli sínu, upp á sameiginleg atvinnusvæði og þjóðhagslega hagkvæmni gagnvart því. Ég deili því með ráðherranum. En ég vil benda á að það eru margar sambærilegar samgönguframkvæmdir sem hafa mun meiri samfélagslegan ábata í för með sér en þessi tiltekna framkvæmd út af umferðarslysum. Umferðarslys kosta okkur 50 milljarða á ári. Ég vil þá nefna t.d. Suðurlandsveg sem er einhver slysamesti vegur landsins, á milli Hveragerðis og Selfoss. Að klára tvöföldun þar kostar álíka mikið og þessi viðbótarfjárveiting. Vegurinn hefur kostað marga örkuml. Ég segi: Með því að gera ekki strax við slíka vegi lánum við heilbrigðiskerfinu mikla peninga fram í tímann sem við fáum ekki til baka.

Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort við megum búast við fleiri svona frumvörpum um brýnar samgönguframkvæmdir sem þarf að fara sérstaklega í og spara fjármuni sem eru þjóðhagslega hagkvæmir og mikilvægt að fara í til að forða heilbrigðiskerfinu og annarri opinberri þjónustu frá tjóni.