146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við eigum að meta allar framkvæmdir með sama hætti. Ég held satt að segja að það skipti ekki öllu máli þegar við erum að meta arðsemi framkvæmda sem ríkið þarf að borga með einhverjum hætti hvort einkaaðilar framkvæmi þær eða ríkið. Mér finnst almennt að ef einkaaðilar koma að svona framkvæmd eigi það að vera hreinræktuð einkaframkvæmd en ekki með láni ríkisins, eins og hér um ræðir, eða á ábyrgð ríkisins. Þegar göng Spalar voru lögð undir Hvalfjörð, vel að merkja framkvæmd sem tókst mjög vel og varð góð samgöngubót og hefur staðið undir sér miðað við áætlanir, var engu að síður ríkisábyrgð á lánum Spalar. Þarna var um óbeina ríkisframkvæmd að ræða. Mér finnst það ekki heppilegt. Ég held að greina eigi þarna á milli. Annaðhvort sé þetta ríkisframkvæmd sem ríkið vinni og á sínum forsendum eða þá að um hreina einkaframkvæmd sé að ræða.

Ef við horfum á almennar samgöngur held ég að þurfi líka að vera mjög ríkar ástæður fyrir því að við skoðum einkaframkvæmd af einhverju tagi. En almennt talað er enginn sparnaður falinn í því fyrir ríkið að ýta þessum kostnaði áfram ef ríkið þarf á endanum að borga brúsann. Ég er ekki almennt á þeirri skoðun að einkaframkvæmd ein og sér sé einhver töfralausn.