146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Óhætt er að segja að framkvæmdin við Vaðlaheiðargöng sé með umdeildari málum síðari tíma. Ég var ánægð að heyra að ráðherrann hyggst láta gera ítarlega úttekt á framkvæmdinni, ég held að það sé skynsamlegt. Ég held að við eigum að reyna að læra af því hvernig farið hefur fyrir þessu verkefni. Hér voru um þetta deilur á sínum tíma. Svo að því sé haldið til haga held ég að þáverandi varaþingmaður, Hlynur Hallsson, hafi lagt fram mál um að þetta yrði kannað árið 2004, gerð þessara ganga. Það hafði þá verið í umræðunni, held ég, frá 1990 eða eitthvað slíkt og mikil vinna hafði átt sér stað. Það er ekki síst það sem verður til þess á sínum tíma að ákveðið er að fara í þessa framkvæmd. Ákveðnar rannsóknir höfðu verið gerðar og lagt í ákveðna undirbúningsvinnu og málið hafði átt töluvert langa, margra ára, meðgöngu. Fram kom hjá hæstv. núverandi menntamálaráðherra, í umræðum hér á þinginu á þeim tíma, þegar þetta var rætt, að kannski væri það ein af meginástæðum þess að hægt væri að styðja við þetta mál.

Ég ætla hins vegar ekki að ýja að því að aðdragandinn, og hvernig málið bar upp hér á þingi, sé hafinn yfir gagnrýni. Alls ekki. Ég held að vel megi fara yfir þá sögu og læra af henni. Það er ekki skynsamlegt með neina framkvæmd, hver svo sem hún er, að hún fái ekki vandaða og ítarlega umfjöllun. Ef það reynist vera niðurstaðan drögum við lærdóm af því.

Mér finnst fólk tala eins og þetta séu peningar í kassa sem hefðu annars verið nýttir til annars konar samgöngubóta, en þetta er auðvitað lán sem var tekið vegna þessarar framkvæmdar. Þetta er ekki lán sem hefði endilega verið tekið til að setja beint í kassann og nýta í almennar framkvæmdir. Það er mikilvægt að hafa það í huga. Á þeim tíma þegar við vorum að rísa upp úr efnahagshruninu, þegar þörf var fyrir framkvæmdir, kom þetta meðal annars til tals vegna þess að ákveðinn undirbúningur hafði átt sér stað og skynsamlegt að fylgja honum eftir og auðvitað af því að það hefur alla tíð staðið til að veggjöldin stæðu undir þessari framkvæmd.

Á sínum tíma var líka mikið talað um umferðarspána og vissulega líka um kjörin sem í boði voru. Sitt sýndist hverjum í því. En við sem höfum fylgst með og erum áhugafólk um vegamál sjáum að umferðin hefur aukist gríðarlega um þetta svæði, líklega um ein 30–40%, eins og nýjustu tölur gefa til kynna. Það er líka eitthvað sem vinnur með verkefninu, myndi ég segja. En auðvitað ætla ég ekki að gera lítið úr því að hér eru miklir peningar undir. Eiginlega er hægt að segja að bókstaflega allt hafi komið upp á og allt farið úrskeiðis sem getur farið úrskeiðis í þessu máli. Ég hef ekki jarðfræðivit en mér segja fleiri en einn og fleiri en tveir, sem slíkt vit hafa, að í sjálfu sér hefðu auknar rannsóknir ekki endilega leitt í ljós hvernig berglögum og öðru var háttað. Ég man til dæmis eftir vatnsaga og flaumi í Héðinsfjarðargöngum — ég bý í Ólafsfirði. Ekki var verið að tala um að það væri vegna þess að það hefði ekki verið rannsakað nóg. Bolungarvík — víða hefur þetta komið upp á. Þetta er það sem við búum við. Það er aldrei hægt að vera fullviss um að eitthvað gangi algerlega upp og ekkert komi upp á.

Það sem við höfum þurft að glíma við í þessum göngum var þessi mikli hiti, það var svolítið nýtt. Við höfðum tekist á við mikið kalt vatn í hinum göngunum, en þetta var eitthvað sem tafði mikið.

Það var gaman að vera viðstödd á dögunum þegar slegið var í gegn og finna huginn í fólki. Maður fann að það var, eftir þetta mikla og erfiða streð og hina ofboðslega neikvæðu umræðu sem verið hefur um þessi göng, ákveðinn léttir að vera komin í gegn.

Það er því miður þannig með vegaframkvæmdir, þótt jarðgangagerð sé líklega með þeim áhættusamari, að þær fara um fram það sem áætlað er. En auðvitað er það svo með þessa framkvæmd að ríkið á allsherjarveð í göngunum. Það á þau í rauninni. Uppleggið er að þetta sé blönduð framkvæmd, þ.e. ríkisábyrgð er á þessum fjármunum. Hér hefur ráðherra lýst því að honum hugnist kannski ekki slíkt fyrirkomulag. Gott og vel. Það er eitthvað sem við drögum lærdóm af, að við þurfum að fara öðruvísi inn í þær framkvæmdir. En ef allt fer á versta veg, ef göngin ná ekki að standa undir sér til næstu 30–40 ára, verðum við samt sem áður að segja, miðað við allt og allt, á móti því að ef við tökum gjöld í göngin erum við samt að eignast ódýr göng, ódýrari en ef ríkið hefði lagt af stað í að gera þau algerlega sjálft án þess að innheimta tolla.

Það er alveg rétt að margar ábendingar koma fram í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs. Sumar nýjar, aðrar byggðar á þeim sem veittar voru þegar lánafyrirgreiðslan var veitt á sínum tíma. En það er svo, eins og ráðherrann segir, að við stöndum frammi fyrir því að ef við ætlum ekki að láta framkvæmdina ónýtast þurfum við að klára hana.

Það er líka vert að hafa í huga að lánskjörin eru betri í dag en þau voru þá, í kringum 2011. Það má velta því upp hvort endurskoða beri upphaflega lánið og hafa það á sömu kjörum og viðbótarlánið. Það myndi örugglega hjálpa til við að hraða niðurgreiðslu.

Mér finnst líka, þegar við erum að tala um þessi göng, að gjarnan sé eingöngu vitnað til umferðarinnar til Húsavíkur. En það er gríðarlega mikil sumarhúsabyggð, við skulum ekki gleyma því, í Þingeyjarsýslum og í Fnjóskadal. Þar að auki held ég að það verði auðveldara að markaðssetja svæðið fyrir alls konar útivist og frístundir. Þá fer það að skipta máli að þurfa ekki að fara Víkurskarðið. Auðvitað verður tíminn að leiða í ljós hversu margir fara í gegn en við höfum umferðarspána. Ég man þegar Héðinsfjarðargöng voru fordæmd — þá átti að flytja íbúana í blokk suður í Reykjavík, það væri ódýrara — en þau hafa oft reynst bjargvættur þegar Öxnadalsheiðin hefur ítrekað verið lokuð. Undanfarna vetur, í mörg ár, hefur umferðin streymt í gegnum Héðinsfjarðargöng. Þrátt fyrir hina bráðvondu Almenninga, Fljótamegin, hefur fólk samt farið þá leiðina.

Ég ætla ekki að gera lítið úr því að þetta er dýrt og kostar okkur meira en við ætluðum upphaflega.

Þegar við hugsum um hvað svona framkvæmd geti gert fyrir samfélög höfum við verið að tala svolítið um rafbíla, loftslagsmál o.fl. Þarna er hægt að spara töluverða peninga og orkuna sem fer í að bílar komast frekar á milli en ef þeir færu yfir hið erfiða Víkurskarð. Ég held að mjög margt ávinnist með þessu. En það breytir engu um það hvort okkur finnst þetta hafa verið tekið fram fyrir eða hvort þetta hefði átt að gera með öðrum hætti. Það er saga sem hefur verið skrifuð, henni verður ekki breytt. Þess vegna held ég að við þurfum að reyna að horfa bjartari og jákvæðari augum á það sem hér er undir. Umferðarspáin er með okkur, svo sannarlega, og það ætti að geta stutt við þetta. Fyrir utan mannlífið og annað slíkt sem hér er undir.

Svo að ég vitni aðeins í umsögn Ríkisábyrgðasjóðs, sem er ágæt og er, eins og fram kom áðan, sá aðili sem við viljum horfa til þegar farið er í framkvæmdir af þessu tagi. Því er beinlínis beint til ríkisins að það sé skynsamlegra að ríkið fjármagni slíkar framkvæmdir alfarið og það er, eins og ég sagði áður, kannski skynsamlegra að endurfjármagna til að gera aðilum kleift að greiða lánið niður hraðar. Ríkisábyrgðasjóður mælir með því að þetta sé samþykkt, að göngin verði kláruð svo að þau geti farið að skila inn tekjum. Það er sagt hér, með leyfi forseta:

„Nokkuð góðar líkur ættu að vera til þess að innheimt veggjald ganganna geti nýst til að greiða upp viðbótarlánið og meira til. Mesta óvissan er hversu mikið næst að greiða inn á núverandi lán Vaðlaheiðarganga hf.“

Tekið er fram að tillögur Ríkisábyrgðasjóðs, um hvernig auka megi möguleika á að ríkissjóður fái sem mest af lánum sínum greitt til baka, komi fram í þessari umsögn.

Vegna þeirra kjara sem ríkið nýtur er bent á að kannski sé skynsamlegt að ríkið geri það frekar. En það er líka bent á það hér, eins og kom fram í máli hv. þm. Pawels Bartoszeks, að ríkið eigi meiri hluta í göngunum. Ég fæ ekki séð að það skipti nokkru máli nú þegar framkvæmdum er um það bil að ljúka. Nema hvað þess er getið að ríkið sem aðalábyrgðaraðili hafi ekki um það að segja hversu há gjaldskráin er, það er það eina sem undir er. En ef ríkið hugsar sér að fá til baka hlýtur það að leggja til að skynsamlegt sé að hafa viðunandi gjald í göngin. Ég held ekki að fyrirtækið Vaðlaheiðargöng hugsi eitthvað öðruvísi. Þeir sem að því standa vilja fá umferðina í gegn og verðlagning hlýtur að miðast við það.

Þrátt fyrir það hvernig þetta er til komið er það ánægjuefni að við séum komin yfir þessa erfiðustu hjalla. Við erum farin að horfa fram á við. Nú sér maður verkefnið tikka áfram eftir þessa erfiðu tíma, ég vona það svo sannarlega. Þetta kemur til fjárlaganefndar og ég vona að engin töf verði á verkefninu þar. Mér finnst ólíklegt að ríkisstjórn leggi fram frumvarp sem stenst ekki lög eins og vikið var að áðan. En vissulega er vert að taka tillit til þess, sem kom fram hjá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni hér áðan, og það verður bara skoðað ef svo er og hvað þyrfti þá að gera til þess. Ég hélt að lögunum um Ríkisábyrgðasjóð hefði verið breytt til að þau næðu utan um þetta verkefni á sínum tíma, ég hefði haldið að það hefði ekkert breyst hvað það varðar síðan þá.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að láta skoða þetta. Ég held að það sé líka gott fyrir þjóðina, (Forseti hringir.) af því að þessi framkvæmd hefur verið eins umdeild og hún hefur verið, að það verði gert.