146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:02]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 6. þm. Norðaust. fyrir ræðuna og er með smáhugleiðingar. Áður en að þeim kemur vil ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir þátt hans og framgöngu í þessu máli og að lausnum til þess að Vaðlaheiðargöng geti orðið sú umferðaræð sem stefnt var að og hafði lengi verið í undirbúningi, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns.

Það er gaman að heyra að einhverjir telja að þetta séu aðallega göng fyrir Húsvíkinga. Það verður þá að segjast eins og er að þeim hefur snarfjölgað eins og Akureyringum í meðförum Gísla Marteins í Evróvisjón. En að öllu gamni slepptu er þarna um að ræða þjóðveg nr. 1 úr Eyjafirði og austur um allt land og síðan inn í hringveginn. Það er ekki eins og þetta sé bara fyrir eitthvert eitt tiltekið byggðarlag. Þess vegna langar mig m.a. að spyrja hv. þingmann, sem ég veit að veltir hlutum vel fyrir sér, hvaða þýðingu þessi göng geti haft á landsvísu.

Í öðru lagi vil ég biðja hana að velta því upp hvaða skýringu við höfum, ég læt henni eftir að túlka það, á þeirri miklu aukningu sem hefur orðið um Víkurskarðið og hvort við getum ekki búist við að það verði enn meiri aukning þegar þessi mikla vegabót verður komin á.