146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:04]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek svo sannarlega undir orð hennar. Það er akkúrat þetta. Ég vitnaði áðan í það þegar Héðinsfjarðargöng voru byggð. Þeim var frestað og svo þegar þau fóru af stað var sú umræða í gangi að þau væru aðeins fyrir örfáa íbúa. Þessi göng séu eru ekki einungis fyrir Húsvíkinga heldur auðvitað allt austursvæðið. Það eykur öryggi gríðarlega að þurfa ekki að fara þennan erfiða veg um Víkurskarðið yfir vetrartímann, ekki síður út af ferðaþjónustunni t.d. á Húsavík og víðar þar sem hvalaskoðunin hefur aukist mikið allan ársins hring. Við megum ekki gleyma að við erum því miður að hirða upp Yaris-bíla yfir háveturinn í Víkurskarði eins og á Suðurlandi og víða annars staðar. Göngin auka öryggi á þessum stað.

Varðandi aukinn straum ferðamanna er hægt að hafa það að leiðarljósi að það vekur áhuga fólks að koma og skoða göng. Það er spennandi að skreppa og skoða þau. Það verður örugglega töluverð slík umferð, nákvæmlega eins og varð heima hjá mér. Fyrir utan byggist upp enn meira á svæðum í kring. Ég hef allavega þá trú fyrir þetta svæði okkar að það byggist mikið upp í kring, hvort sem það er í tengslum við frístundir, íþróttir, og svo er ýmislegt fleira sem göngin hjálpa til með.

Ég verð líka að minnast á að við erum að þjappa saman heilbrigðisþjónustu og ýmsu öðru á tiltekna staði, fæðingarþjónustu og öðru slíku. Það er líka mikið öryggisatriði fyrir íbúa á risastóru svæði fyrir austan að komast þarna allan ársins hring án tiltakanlegra vandræða. Mér finnst það skipta máli. Ég hef ekki efasemdir um að það verður mikil aukning á umferð, miklu meiri en við höldum.