146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:06]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil líka beina sjónum að öðrum þætti sem mér finnst oft gleymast í umræðunni, í þessu tilfelli um Vaðlaheiðargöngin, og hann er að starfsmenn og starfsfólk vinnur hörðum höndum og við hættulegar aðstæður við að búa til þá vegabót sem göng eru á Íslandi. Ég tala nú ekki um þá tækniþekkingu og það verkvit og útsjónarsemi sem þeir aðilar, starfsfólkið, hefur til brunns að bera og skilar góðu til okkar. Mér finnst að við höfum algerlega efni á því að þakka þeim fyrir þeirra þátt í þessari uppbyggingu.

Það hefur ýmislegt komið upp á í Vaðlaheiðargöngum en ég man líka eftir því þegar var farið að tala um göngin undir Hvalfjörð, ýmsum leist alls ekki á blikuna, að fara að gera göng undir sjávarmáli. Menn sáu fyrir sér að þetta myndi allt hrynja og það yrði ekkert af því. En sem betur fer gefast menn ekki upp. Við erum að feta okkur inn í eitthvað svipað og aðrar þjóðir sem búa við svipað landslag og við; há fjöll og yfir háar heiðar og fjallvegi að fara. Það er mjög ánægjulegt að sjá þá þróun sem hefur orðið og þó svo að það hafi verið umdeilt hafa menn ekki bakkað. Ég tel að þetta sé eitthvað sem skiptir miklu máli varðandi búsetu úti um landið, að við séum með öruggar samgöngur.

Síðan vil ég náttúrlega koma inn á það sem hv. þingmaður kom inn á áðan varðandi hreinar og klárar mengunarvarnir. Við erum í staðinn fyrir að láta (Forseti hringir.) bíla klifra upp fjallvegi og spúa frá sér eiturefnum að keyra nánast á sléttlendi.