146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[16:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrst er rétt og við hæfi að tjá sig aðeins efnislega um frumvarpið sjálft, því að það er jú það sem er hér til umræðu. Fyrir mér væri eiginlega hálfgalið að halda ekki áfram með framkvæmd sem komin er svona langt. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að séu menn komnir svona langt með framkvæmd þá þýðir lítið að ætla ekki að klára hana, það væri ekki skynsamleg nýting fjármuna. Þannig að ég skil vel að þetta frumvarp hafi verið lagt fram og finnst nokkuð skynsamlegt að klára það sem byrjað er á, því að annars hafa þeir fjármunir einfaldlega farið í súginn, í það minnsta nýtast þeir ekki strax.

Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra aðeins fyrr í umræðunni. Hæstv. ráðherra fannst ég aðeins kominn út fyrir efnið og ég skil hvað hæstv. ráðherra á við með því. Ég ætla samt að leyfa mér að gera það aftur. Ég er sammála því sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra, að við þurfum að læra af svona framkvæmdum. Ég er ekki endilega viss um að ég og hæstv. fjármálaráðherra drögum sama lærdóm af framkvæmdinni. Þó má það vel vera. Sú staðreynd að hér erum við að fjalla sérstaklega um breytingu á lögum um heimild vegna framkvæmdarinnar, gefur tilefni til þess að við stöldrum aðeins við og skoðum þetta fyrirkomulag sem heitir: Samkrull einkaaðila og ríkisins þegar kemur að stórum framkvæmdum. Það líka á að gefa okkur tilefni til þess að velta fyrir okkur á hvaða forsendum við tökum ákvarðanir.

Ég tel að þær ákvarðanir sem við tökum þegar kemur að vegabótum, þegar kemur að samgöngumálum, eigi að grundvallast á samgönguáætlun, þær eigi að grundvallast á forgangsröðun með hagsmuni samfélagsins í huga.

Samneysla. Ég er einfaldur maður og trúi á samneysluna, að við eigum sem samfélag saman ákveðnar lífæðar og að við förum saman í að fjármagna þessar lífæðar, í að reisa þær og reka.

Ákvörðunin sem tekin var á sínum tíma. Ég hef stundum prísað mig sælan að hafa ekki verið á þingi á sínum tíma og þurft að taka ákvörðun um þetta frumvarp. Þá var nú staðan önnur í efnahagsmálum en við horfum fram á nú. Gjaldfall ríkissjóðs var möguleiki á þessum árum. Ég skrifaði ófáar fréttir þegar ég starfaði sem blaðamaður um að þetta eða hitt stórfyrirtækið, stofnunin eða bankinn, eða hvað það var nú, væri farið á hausinn. Við munum þann tíma. Þegar ákvarðanir eru gagnrýndar er oft nauðsynlegt að setja sig í fótspor þeirra sem ákvarðanirnar tóku, það lærði ég í sagnfræðinni. Ég er samt ekkert viss um að ég hefði greitt atkvæði með þessari framkvæmd, ég veit það hreinlega ekki. En ég er mjög áfram um að farið verði eftir forgangsröðun sem birtist í samgönguáætlun, að það séu ekki forsendur fjármagnsins sem ráði för.

Á þessum tímapunkti í efnahagssögu þjóðarinnar voru það forsendur fjármagnsins sem réðu því að farið var í þessa framkvæmd umfram aðra. Sú staða er ekki uppi nú. Við tölum mikið um það samfellda hagvaxtarskeið sem við lifum nú. Ráðherrar núverandi hæstv. ríkisstjórnar og fráfarandi tala mikið um góða stöðu í efnahagsmálum, þannig að ákvarðanir sem við tölum í dag eru á engan hátt teknar með sömu formerkjum og ákvarðanirnar sem teknar voru á þeim tíma. Þess vegna vil ég, og það er mín ósk, að við lærum af þessu máli af því að þetta eru ekki bara einhverjar fræðilegar vangaveltur sem ég er í hér.

Við horfum fram á það að á næstu misserum, mánuðum, jafnvel árum, þurfum við að taka ákvarðanir um það hvort við ætlum að feta enn frekar eftir þeirri braut sem er samkrull einkaaðila og ríkisins. Samgönguráðherra boðar nýjar hugmyndir í gjaldtöku með vegtollum. Hæstv. fjármálaráðherra fór í svari sínu við andsvari frá mér aðeins yfir hugmyndir sínar hvað það varðar. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki með nein slík plön í bígerð þá eru þau í bígerð.

Hæstv. samgönguráðherra hefur sagt hér að samgönguáætlun verði mögulega ekki lögð fram fyrr en á næsta ári af því að fyrst eigi að skoða hvernig mögulegt sé að ná nýjum leiðum í fjármögnun samgöngumannvirkja. Ég veit það ekki. Þurfum við nýjar leiðir í fjármögnun samgönguáætlunar? Þurfum við fleiri framkvæmdir þar sem ríkið er ábyrgðaraðili að einhverju leyti en er ekki með alla umsjón verkefnisins á hendi sér? Þurfum við frekari verkefni þar sem ef allt fer úrskeiðis kemur ríkið til bjargar en hagnaður eða ábati af verkefnum, hann lendir ekki hjá ríkinu? Ég er ekki viss um það. Ég er hreint ekki viss um það.

Við höfum allt of lítið sett í vegamál á síðustu árum og áratugum. Fjármagn okkar í dag, þrátt fyrir viðbætur hæstv. ríkisstjórnar, er samt undir meðaltali síðustu áratuga, metið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Af hverju? Af hverju setjum við ekki frekari fjármuni í samgöngur á þessu mikla hagvaxtarskeiði? Hver er ástæðan? Það er hagvöxtur. Við eigum fullt af peningum en við setjum þá ekki í samgöngur. Er það af því að það er engin þörf fyrir hendi? Nei, það eru allir sammála um þörfina. Það eru allir sammála um að það er gríðarlega mikil þörf.

Samgönguráðherra sagði síðast í dag í Fréttablaðinu: 100 milljarðar. Samgönguáætlun, það vantar milljarða ef ekki milljarðatugi þar upp á. Það er ekki ástæðan fyrir því að við setjum ekki sem samfélag aukna fjármuni í að byggja upp þá nauðsynlegu innviði sem samgöngukerfið okkar er. Hver er ástæðan þá? Er hún kannski sú að við ætlum að leita fjármunanna annars staðar? Ætlum við að hleypa einkaaðilum enn frekar inn í vegakerfi okkar til að reisa það og reka? Ég veit það ekki. Samgönguráðherra talar fyrir ýmiss konar hugmyndum hvað það varðar. Það er ekki annað að skilja á honum en að það eigi að setja tollhlið hér við hverja einustu þjóðleið eða kindagötu, liggur við, út úr borginni, höfuðborgarsvæðinu, og þar verði rukkað fyrir. Það er ekki samneysla í mínum huga.

Í mínum huga eru lífæðar samfélagsins, hvort sem það snýr að vegum sem við þurfum að fara um með börnin okkar, á sjúkrahús, í skóla, þeim línum sem rafmagnið okkar kemur eftir og kveikir ljósin hjá okkur, æðum fyrir heitt og kalt vatn, frárennsli. Við gætum örugglega haldið eitthvað áfram. Þetta eru þessar lífæðar sem við eigum að eiga saman sem samfélag. Við eigum að fjármagna þær saman sem samfélag af því að það erum við sem samfélag sem nýtum þær. Hugmyndir einkafjármagnsins eiga einfaldlega ekki heima inni í þessu að mínu mati. Ég þykist fullviss um að ekki séu allir í þessum þingsal sammála mér um það. En það er mín einfalda heimssýn.

Af hverju höfum við verið að draga svona markvisst saman fjármuni í uppbyggingu þessa? Það er engin önnur skiljanleg skýring á því en sú að við ætlum enn frekar að hleypa einkafjármagninu inn, við ætlum enn frekar að hækka skatta, sem þetta er, af því að við skulum ekki gleyma því að það að setja á þjónustugjöld er ekkert annað en skattar. Nú nenni ég ekki í einhverjar orðskýringarpælingar um það hvað nákvæmlega þetta þýðir, hvað nákvæmlega orðið skattur þýðir og hvað nákvæmlega orðið þjónustugjald þýðir. Þetta er engu að síður ekkert annað en skattheimta. Þjónustugjöld eru bara dulin skattheimta. Að það kosti mig aukafjármuni að heimsækja ættingja austur fyrir heiðar er bara skattur.

Ég trúi á jöfnuð. Ég trúi á að skattkerfið eigi að nýta þannig að þeir sem mest hafa milli handanna borgi mest. Þannig fjármögnum við vegakerfið, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, því að — já, nú ætla ég að fara enn meira út fyrir boxið: Þetta samkrull einkafjármagns og hins opinbera, það er nefnilega líka að finna víða annars staðar; í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu, og væntingar þar um. Það ber allt að sama brunni þegar kemur að þessu. Þess vegna, hæstv. fjármálaráðherra, nefndi ég fjármálaáætlun næstu fimm ára. Þar sjást þess merki hvert stefnir.

Munum við standa hér eftir fimm ár og ræða hvort við eigum að koma til bjargar þeim aðilum sem eru að reisa nýjan Vesturlandsveg? Munum við standa hér eftir níu ár og ræða um hvernig eigi að koma betur að verkefninu sem heitir tvö- eða fjórföldun eða sjöföldun, eða hvað það verður þá, Suðurlandsvegar?

Ég deili þeirri sýn sem hér kom fram áðan að það sé þægilegast að hafa sem minnst samkrull þar á milli og að samkrull einkafjármagns og hins opinbera sé ekki endilega lausnin. Ég hef hins vegar þá sýn að niðurstaðan af því sé sú að það sé hið opinbera í gegnum skattkerfi sitt, í gegnum samneysluna, sem eigi að byggja upp þá innviði sem almennilegu og lífvænlegu samfélagi eru nauðsynlegir.

Þarna er ég að einhverra mati kominn töluvert út fyrir þann ramma sem þetta frumvarp setur okkur í umræðunni, ég er viss um það. Ég vil að við sem þingheimur reynum að læra af reynslunni, við reynum að læra það af þessu frumvarpi og þeirri stöðu sem upp er komin varðandi þessa framkvæmd sem við ræðum hér, ekki bara hvað þessa framkvæmd sjálfa varðar, þó að ég styðji heils hugar að gerð verði úttekt á henni, heldur að við lærum af henni þegar kemur að þeim ákvörðunum sem við þurfum að taka hér á næstunni, þegar kemur að því að ákveða hvernig við ætlum að uppfylla þá nauðsynlegu þörf sem allir eru sammála um að er fyrir hendi varðandi uppbyggingu í samgöngumálum.

Þegar hæstv. samgönguráðherra, eða hver sem það verður, kemur hér næst og ræðir um að leiðin til þess sé enn frekara samstarf einkaaðila og ríkisins, þá skulum við lyfta þessu frumvarpi upp. Við skulum eiga orðastað um hvort við höfum eitthvað lært af þessari framkvæmd, að þetta sé kannski ekki heppilegasta leiðin, og hvort aðrar leiðir séu þá heppilegri og hvort þetta eigi ekki einfaldlega að vera hluti af þeirri samneyslu sem við sem samfélag eigum að vera stolt af því að hafa sem mesta.