146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

523. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, sem lýtur að kröfum til mönnunar o.fl. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd flytur málið.

Frumvarpið er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og er flutt af umhverfis- og samgöngunefnd að beiðni ráðherra. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, með síðari breytingum (hér eftir áhafnalög). Annars vegar er lögð til breyting á kröfum sem gerðar eru til mönnunar lóðs- og dráttarskipa og vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva og hins vegar breyting á ákvæði til bráðabirgða sem veitir handhöfum 30 brúttórúmlesta skipstjórnarskírteina réttindi til starfa á skipum sem eru 12 metrar og styttri í strandsiglingum á þann hátt að þeir fái réttindi á skip 15 metrar og styttri í strandsiglingum.

Breytingarnar sem um er að ræða eru:

1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:

a. Á eftir orðinu „björgunarskipum“ í 1. málslið 3. mgr. kemur: lóðs- og dráttarskipum og vinnuskipum sjókvíaeldisstöðva.

b. Í stað orðsins „Björgunarskip“ í 2. málslið 3. mgr. kemur: Skip samkvæmt þessari málsgrein.

c. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal mæla fyrir um farsvið lóðs- og dráttarskipa og vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva í reglugerðinni.

2. gr. Í stað orðanna „12 metrar og styttri“ í 1. málslið 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum kemur: 15 metrar og styttri.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ég vil gera aðeins grein fyrir mönnun lóðs- og dráttarskipa og vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva.

Undanfarin ár hafa stærri hafnir keypt öflugri lóðs- og dráttarskip en áður voru notuð í flestum höfnum landsins. Sú breyting hefur haft í för með sér að vélar skipanna eru mun stærri en áður þekktist. Engin sérákvæði eru í áhafnalögum um mönnun slíkra skipa þannig að gerðar eru sömu kröfur til þessara skipa og fiskiskipa. Með góðum rökum má halda því fram að lóðs- og dráttarskip séu vinnuskip frekar en farskip. Farsvið er jafnan lítið, fartími er stuttur og hlutverk einhæft.

Áhafnalög gera ráð fyrir að ef um tvær aðalvélar er að ræða í skipi, eins og er í mörgum tilfellum lóðs- og dráttarskipa, sökum eðlis þeirra, þá er vélarafl þeirra lagt saman. Að hafa tvær vélar með tveimur skrúfum er æskilegt fyrir stjórnhæfi þessara skipa og er til mikilla bóta við vinnu þeirra, eykur verulega öryggi enda skiptir stjórnhæfi og snerpa öllu máli í vinnu lóðs- og dráttarskipa.

Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til má styðja hafnir í að hafa yfir að ráða nægjanlega öflugum lóðs- og dráttarskipum til að þjónusta stækkandi skip sem koma til landsins og bæta þjónustu hafnanna til muna. Þá verður auðveldara að fá réttindamenn til að stjórna vélbúnaði þessara skipa, en borið hefur á vandkvæðum við að fá réttindamenn til starfa.

Sömu rök má færa fyrir mönnun vinnuskipa sjókvíaeldisstöðva. Um er að ræða skip sem sinna afmörkuðum verkefnum um stuttar vegalengdir á takmörkuðu farsviði. Í starfi skipstjóra á slíkum vinnuskipum felst að sigla til og frá kvíum, viðhald myndavélabúnaðar, viðhald fóðurlagna, eftirlit með festingum og að sinna almennum öryggismálum stöðvanna og starfsmanna þeirra. Fyrirtækjunum hefur reynst erfitt að manna vinnuskip eins og um úthafsskip væri að ræða.

Aðeins um 30 brúttórúmlesta réttindi, eða svonefnt pungapróf.

Fram hafa komið ábendingar um að ákvæði 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við áhafnalög samræmist ekki ákvæðum 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sem kveður á um að lögmætir handhafar skírteina samkvæmt eldri lögum skuli halda réttindum sínum óskertum. Í 4. mgr. segir hins vegar að handhafar 30 brl. skírteina skuli fá útgefið skírteini til að vera skipstjórar á skipum 12 metrar og styttri að skráningarlengd í strandsiglingum. Samkvæmt úttekt Samgöngustofu hefur komið í ljós að skip sem mælast 30 brl. að stærð eru mörg hver lengri en 12 metrar að skráningarlengd og nokkur þeirra allt að 19 metrar að skráningarlengd. Samkvæmt þessu þykir sem við gildistöku áhafnalaga hafi þess ekki verið nægilega vel gætt að 12 metra skip væru sambærileg í stærð og þau sem mælast 30 brúttórúmlestir.

Til að koma til móts við handhafa 30 brl. skírteina er lagt til:

1. að atvinnuréttindi handhafa 30 brl. skipstjórnarréttinda skuli miðast við 15 metra skráningarlengd skipa í stað 12 metra skráningarlengdar gagnvart skipum sem ekki eru mæld brúttórúmlestamælingu og

2. að handhafar 30 brl. skipstjórnarréttinda skuli í samræmi við þau réttindi eiga rétt á að gegna stöðu skipstjóra á þeim skipum, sem samkvæmt skipaskrá við áramót 2016/2017 eru mæld brúttórúmlestamælingu og mælast samkvæmt henni undir 30 brl., þrátt fyrir að þau séu lengri en 15 metrar miðað við skráningarlengd.

Þessar breytingar fela í sér nýtt réttindastig til skipstjórnar á íslenskum skipum sem komi í stað eldra réttindastigs. Aðeins þeir sem eru handhafar 30 brl. skipstjórnarréttinda skulu eiga rétt á því að fá útgefin 15 metra skipstjórnarréttindi. Um er að ræða sólarlagsákvæði sem fellur úr gildi þegar engir eru lengur handhafar slíkra skírteina.

Þetta lagafrumvarp er lagt fram í nafni umhverfis- og samgöngunefndar. Því er ekki þörf á að vísa því til nefndar heldur til atkvæðagreiðslu í þinginu.