146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 59/2017 um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, 361. mál, sem varðar breytingu á tilskipun um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Í nefndarálitinu er greint frá forsendum málsins og hinu lagalega umhverfi en hér er um að ræða afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara vegna breytinga sem þurfa að eiga sér stað vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og tengjast málefnum upplýsingasamfélagsins.

Málið snýst um að víkka út skyldu til þess að heimila endurnotkun allra gagna sem réttur almennings til aðgangs er að samkvæmt upplýsingalögum. Þessi réttur til endurnotkunar nær þó ekki til höfundavarinna gagna. Gildissviðið er eins og ég segi víkkað út og mun m.a. ná yfir söfn, t.d. bóka- og skjalasöfn. Þetta felur líka í sér breytingar á ákvæðum um gjaldtöku og skýrt er tekið fram að ekki skuli taka hærra gjald en nemur kostnaði við hverja beiðni um endurnotkun.

Má segja í stuttu máli að samstaða var í utanríkismálanefnd um afgreiðslu málsins. Það er rétt eins og kemur fram í niðurlagi nefndarálitsins að innleiðing tilskipunarinnar felur ekki í sér skyldu til þess að öll fyrirliggjandi gögn verði gerð aðgengileg til endurnotkunar og ekki er gert ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar hafi umtalsverð áhrif á tekjur opinberra aðila. Þá er áréttað að þess þurfi að gæta við innleiðingu tilskipunarinnar að skýr lagafyrirmæli þurfi að gilda um gjaldtöku viðkomandi stofnana sem málið snýr að.

Ég vísa að öðru leyti til nefndarálitsins eins og það liggur fyrir í þingskjali. Við höfum áður innleitt reglur um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Gerðin sem hér er um að ræða felur í sér útvíkkun á gildissviði hennar en ekki grundvallarbreytingu.