146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtyggingu, lögum um Seðlabanka Íslands, lögum um neytendalán, og lögum um fasteignalán til neytenda (lán tengd erlendum gjaldmiðlum).

Nefndarálitinu, sem er á þskj. 771, fylgir breytingartillaga á þskj. 772.

Á fund efnahags- og viðskiptanefndar komu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis, fulltrúar Fjármálaeftirlits, fulltrúi frá Neytendasamtökum, frá Samtökum fjármálafyrirtækja og frá Seðlabanka Íslands. Að auki bárust nokkrar umsagnir sem greint er frá í álitinu.

Með frumvarpinu er lagt til að lán tengd erlendum gjaldmiðlum verði heimil með vissum takmörkunum. Lán til neytanda verði háð því að hann hafi tekjur í þeim gjaldmiðli sem lán tengist, geti staðið af sér verulegar breytingar á greiðslubyrði vegna gengis- og vaxtabreytinga eða leggi fram fjárhagslegar tryggingar sem draga verulega úr gjaldeyrisáhættu. Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja lánveitingum skorður í þágu fjármálastöðugleika.

Í nefndarálitinu er nánar fjallað um sjö greinar frumvarpsins. Ég tel ekki ástæðu til þess að gera sérstaklega grein fyrir því í ræðustól, það stendur allt í nefndarálitinu.

Í breytingartillögu, sem fylgir hér með, eru tíu breytingartillögur sem lagðar eru til í frumvarpinu. Þær standa í breytingartillögunni og eru skýrðar að hluta til í umfjöllun í nefndarálitinu. Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja það nánar. Það skýrir sig að mestu leyti sjálft.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt sem breytingum sem gerðar eru á sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Óli Björn Kárason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Þetta er gert á Alþingi, 11. maí 2017.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Vilhjálmur Bjarnason, framsögumaður, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson og Jón Steindór Valdimarsson. Það er meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins, sem hefur þinglega stöðu, og sömuleiðis til breytingartillögu.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.