146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[17:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að koma aðeins inn í þetta mál á lokasprettinum. Þegar fjallað hefur verið um sameiningar lífeyrissjóða eða niðurlagningu, alveg eins og gert er ráð fyrir brottfalli laga um Lífeyrissjóð bænda, er að mörgu að hyggja. Ég get auðvitað ekkert látið hjá líða þó að ég ætli ekki að bera á móti því að það sé skynsamlegt að leggja þessa lífeyrissjóði niður eða sameina þá með þeim hætti sem hér er lagt til, a.m.k. miðað við þær forsendur sem gefnar hafa verið og umsagnir segja til um. Ég vitna til þess sem fram kemur í lögunum og vakin er athygli á að þegar farið var í að reyna að sameina lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og hins almenna atvinnumarkaðar voru ákveðnar forsendur þar á bak við.

Af því að við fjöllum um ríkisfjármálaáætlun er í rauninni ekki gerð nein tilraun til þess að jafna kjör opinberra starfsmanna við hin almennu. Ekki hefur verið gerð atlaga að því að reyna að búa til einhverjar sviðsmyndir eða neitt slíkt, vegna þess að öll umræðan um opinbera starfsmenn og lífeyrisréttindi þeirra, að þau væru betri en gerðist á hinum almenna markaði og það þýddi að launin væru lægri að einhverju leyti, það er auðvitað ekki algilt frekar en neitt annað. En heilt yfir hefur það verið þannig í gegnum tíðina.

Mér finnst ástæða til þess að halda því á lofti þar sem ég var í fjárlaganefnd að umræða kom fram um lífeyrismálin og hvernig bera ætti sig að í því efni og varðandi hækkun sem var á framlögum vegna lífeyrismála.

Ég vildi nú bara minna á þetta af því að mér finnst það ábyrgðarhluti að afsala sér lífeyrisréttindum, eins og gert var. Þó að þetta frumvarp fjalli um að sameina lífeyrissjóði eða leggja þá niður þá breytir það því ekki að undirliggjandi er það vandamál sem við höfum áður fjallað um hérna, þ.e. hvernig meta á kjör og í hverju réttindin eru fólgin, þ.e. þau réttindi sem fólk er í rauninni að afsala sér með því að gangast undir það að jafna lífeyrisréttindin til hins almenna vinnumarkaðar, að ekki skuli hafa farið fram nein greining á því. Ég vildi bara árétta það í þessari umræðu.