146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Ég ætla að leyfa mér í framhaldi af ræðu hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur að vitna hér í umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ljóst er að gera þarf breytingar á starfsemi Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga (LH) þar sem sjóðfélögum sjóðsins fer ört fækkandi og hjúkrunarfræðingar sem þiggja lífeyri frá sjóðnum eru mun fleiri en þeir sem greiða inn í sjóðinn. Ljóst var að ganga hefði þurft á bakábyrgð launagreiðanda á sjóðnum í byrjun árs 2018 að óbreyttu og hefði slík ráðstöfun getað reynst heilbrigðisstofnunum erfið.“

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frumvarpinu er þess jafnframt gætt að enginn sjóðfélagi LH tapi áunnum rétti við sameiningu sjóðanna. FÍH lýsir yfir ánægju með þetta og telur að verði frumvarpið samþykkt muni sameining LH og LSR verða sjóðfélögum LH til góða.“

Mér finnst rétt að þetta liggi í þingskjölum eftir ræðu hv. þingmanns hér áðan.