146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[17:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þeirra orða sem hér voru sögð þá var það var akkúrat það sem ég sagði. Ég var ekki að gera lítið úr því að sjóðurinn yrði sameinaður eða frumvarpið sem sem hér er undir væri haft með þeim hætti að í ljósi umsagna — og þá er ég ekki bara að tala um lífeyrisréttindin heldur þ.e. réttindin til launa. Við ræddum það töluvert í fjárlaganefndinni þegar þessi mál komu þar fyrir, af því að þetta er partur af því. Það er ekki bara að jafna lífeyrisréttindin. Partur af því er að réttlætt var að laun opinberra starfsmanna væru lægri vegna þess að lífeyrisréttindin væru svo rík. Það þekkir hv. þingmaður jafn vel og ég og það var það sem ég vildi vekja athygli á. Ekki er gerð tilraun hér til þess að, ég sé það a.m.k. ekki — við þekkjum að það er allt upp í 30% munur á kjörum sumra stétta opinbera geirans og hins almenna þar sem hægt er að meta það.

Síðan erum við með stéttir þar sem við höfum ekki hugmynd um við hvað ætlum við að miða. Það var það sem ég vildi vekja athygli á. Til dæmis í ríkisfjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir neinum verulegum hækkunum til handa opinberum starfsmönnum til þess að mæta þessu. En það er alveg rétt að lífeyrissjóðurinn er ekki sjálfbær eins og hann er í dag. Það höfum við líka tekið fyrir í fjárlaganefnd og hefur legið fyrir lengi að svo er.

Ég vildi líka árétta að það var þetta sem ég var að meina. Mér finnst það ábyrgðarhluti. Kennarasambandið kom fram, sem og BSRB og fleiri aðilar sem sögðu nákvæmlega þetta sem ég er að segja þegar við vorum að fjalla um lífeyrisréttindin, að það væru auðvitað mikil vonbrigði að öll þessi ár hafi ekki einu sinni verið gerð tilraun til þess að reyna að meta þetta.