146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

brottfall laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og niðurlagning Eftirlaunasjóðs starfsmanna Útvegsbanka Íslands.

387. mál
[17:53]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég ætlaði nú að láta staðar numið eftir síðustu ræðu, en í ljósi þess að umræðan fór aðeins út í almenna umræðu um lífeyrissjóðsmál og þá sérstaklega lífeyrissjóðsmál tengd opinberum starfsmönnum, fannst mér ástæða til þess að koma og leggja orð í belg. Það er í fyrsta lagi mikilvægt að leggja ekki að jöfnu þá breytingu sem nú er verið að gera og breytingar tengdar Lífeyrissjóði bænda. Málið hjá Lífeyrissjóði bænda virðist vera fyrst og fremst það að þar er gengið út frá ákveðinni réttindaskerðingu með því að fella lögin burtu og þrátt fyrir að einhver loforð séu gefin og tryggingar gerðar fyrir því, m.a. með vísun í eignarréttarákvæði stjórnarskrár, að þessar skerðingar muni ekki hafa áhrif á sérstaklega ekkjur bænda sem fengið hafa greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda. Það álit virðist vera enn þá til staðar og hefur ekki verið hnekkt með þeim rökum sem komið hafa fram þar, þar sem þetta er sérstök heimild sem snýr ekki að rétti sem ekkjurnar hafa, heldur réttinum sem eiginmenn þeirra höfðu. Þar er ekki um raunverulegan eignarrétt að ræða og þar af leiðandi er ekki ljóst að það verði varið með þeim hætti. En það er önnur umræða sem við munum koma að þegar við tökum fyrir lífeyrissjóðsmál bænda.

Hitt er að í desember sl. var gerð ákveðin aðgerð til þess að reyna að laga þá uppsöfnuðu tryggingafræðilegu skekkju eða þann halla sem hafði myndast í þeim sjóði með því að færa til rúmlega 100 milljarða kr. yfir í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna. Öllum var þá ljóst sem skoðað höfðu dæmið almennilega að þetta myndi vera tímabundin redding sem ekki myndi duga í ljósi mjög margra þátta. Þessi halli mun líklega halda áfram að aukast. En á sama tíma var farið í lífeyrisréttindaskerðingu hjá ríkisstarfsmönnum, sem eru töluvert margir í þessu landi. Það var gert, eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á, án þess að laun væru leiðrétt á móti, sem hefði kannski átt að vera fyrsta aðgerðin sem farið var í frekar en að fara í réttindaskerðingu með óljósum loforðum um launaleiðréttingar eftir á, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjármálaáætlun eða fjármálastefnu. Og sennilega verður aldrei gert ráð fyrir því ef stefnu núverandi ríkisstjórnar verður haldið áfram.

Af því að þessar réttindaskerðingar eiga sér stað nú og tryggingafræðilegi hallinn mun halda áfram að aukast hjá Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, og líklega mun sá plástur sem við erum hér með til umræðu bara leiðrétta smávegis í smátíma en svo mun þurfa frekari leiðréttinga við eftir á, er full ástæða til þess að við förum að skoða lífeyrissjóðakerfið í heild, metum það frá grunni, skoðum hvort ekki sé til betri strúktúr sem við getum notað til þess að reyna að tryggja framgang þess til framtíðar. Fólk er að eldast. Samfélagið er að eldast. Mannfjöldapýramídinn er að snúast við smám saman. Það er ekki að ástæðulausu sem ég hef látið útbýta hér þingsályktunartillögu um að farið verði í heildarendurskoðun á lífeyrissjóðskerfinu. Hún hefur því miður ekki komist á dagskrá, en þar er leitast við að svara eftirfarandi spurningu: Hvernig getum við látið þetta kerfi ganga upp til lengri tíma?

Í ljósi þeirrar umræðu sem spannst hér er góð ástæða til að minnast á og minna á að þetta kerfi mun líklega hrynja að öllu óbreyttu. Það hefur verið að hruni komið áður. Því hefur verið reddað með einhverjum tilfærslum og plástrum. En ef við förum ekki í það heildstætt að endurskoða lífeyrissjóðakerfið frá grunni á næstu árum — því fyrr því betra — horfum við fram á gríðarleg útgjöld og að lokum einhvers konar hrun. Það vil ég helst ekki. Þannig að ég vona að við getum tekið þá umræðu, hvort sem er með því að taka tillögu mína á dagskrá eða með öðrum hætti.