146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:13]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hennar ræðu. Um hvað snýst þetta mál í grunninn? Það snýst um það að fram hafa komið ábendingar um að ekki væri nægileg lagastoð fyrir þeirri venju sem hefur skapast að lána til aðfaranáms við þessa skóla sem nú hefur verið gert í langan tíma. Þær ábendingar sem komu til okkar voru þess efnis að jafnvel mætti skilja það sem svo að ekki yrði lánað til þessa náms á næstunni nema slík lagabreyting kæmi til. Efnislega snýst frumvarpið um það að leggja lagastoð undir þessa framkvæmd sem hefur þegar átt sér stað.

Það má síðan vel vera að við getum haft einhverja skoðun á því að koma þessum hlutum aðeins öðruvísi fyrir. Það má vel vera að ég geti að einhverju leyti verið sammála hv. þingmanni og mörgu af því sem kemur fram í minnihlutaáliti um faglegan grunn undir aðfaranámið, undir þau lög sem það hvílir á, um það að heppilegt væri að það gæti að einhverju leyti farið fram í framhaldsskólum, og reyndar, eins og reglugerð um aðfaranám kveður á um, er hægt að hafa aðfaranám í framhaldsskólum í samvinnu við háskóla, þannig að sú heimild er til staðar en hún hefur ekki verið nýtt.

Málið snýst um þetta til að byrja með. Ef nefndin myndi síðan koma með þær breytingartillögur sem hér hafa verið lagðar til er að sjálfsögðu verið að leggja til gríðarlega mikla eðlisbreytingu á LÍN eins og það er í dag og á frumvarpi sem hefur verið lagt fram. Það er auðvitað umræða sem við getum tekið. En hér er verið að leysa ákveðið vandamál þess efnis að ekki hefur verið talin nægileg lagastoð fyrir þeirri framkvæmd sem verið hefur hingað til.