146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:21]
Horfa

Iðunn Garðarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að taka undir þá punkta sem koma fram í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Í nefndaráliti meiri hlutans er lagt til að svokallað aðfaranám, sem er undirnám á framhaldsskólastigi og boðið er upp á í ákveðnum einkareknum háskólum, sé gert lánshæft. Þannig yrði almennt bóknám á framhaldsskólastigi lánshæft fyrir þá sem stunda nám í umræddum einkareknum háskólum en ekki nám í opinberum framhaldsskólum.

Í 1. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna segir að hlutverk lánasjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Lagabreytingin sem hér er lögð til gengur þvert á þessi markmið. Hún er til þess fallin að skerða jafnrétti til náms og býður t.d. upp á mismunun vegna búsetu, efnahags eða fjölskyldustöðu. Eðlilegra væri að það sama gengi yfir alla skóla sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi þannig að öllum nemendum á umræddu stigi framhaldsskóla byðist að taka námslán, en ekki einungis þeim sem stunda nám í þeim einkareknu skólum sem hér um ræðir.