146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna breytingartillögunum sem eru þegar hjá meiri hlutanum, að útiloka ekki nemendur erlendis. Við í minni hlutanum viljum bæta við nokkrum breytingum í viðbót til þess að gera umgjörðina um aðfaranám aðeins skýrari.

Þá langar mig að útskýra hvað þær breytingar ganga út á og sér í lagi skipting og breyting á lögum um háskóla þar sem við bætist að öllu aðfaranámi lýkur með stúdentsprófi. Í reglugerð um aðfaranám er einmitt tiltekið að þeir nemendur sem ætla að fara í aðfaranám þurfi að hafa lokið 140 framhaldsskólaeiningum og að aðfaranámið sé 60 einingar. Viðkomandi nemandi lýkur því námi með 200 einingar sem er nóg til þess að útskrifast með stúdentspróf af kjarnabraut. Það er því ekki nema eðlilegt að nemandi sem hefur klárað 200 framhaldsskólaeiningar í aðfaranámi sé í rauninni búinn að klára það hæfniþrep eða þriðja þrep sem hann er að taka skref af og inn í háskóla. Okkur fannst því eðlilegt að skýra rétt nemenda til þess að þegar þeir hafa klárað aðfaranám og þótt þeir séu komnir með stúdentspróf þá geti þeir mögulega leitað til annarra háskólastofnana ef svo ber undir. Hver veit nema háskóli hverfi? Framhaldsskólar hafa horfið og kannski einhver réttindi sem eru ekki til lengur af því skólinn er ekki til eða brautin er ekki til. Þá hefðu nemendurnir a.m.k. unnið sér inn þau réttindi að vera með stúdentspróf, útskrift af þriðja þrepi, og gætu þá farið inn í hvaða háskóla sem er sem skilgreinir aðgangskröfur að námsbrautum sínum með tilliti til þeirra formerkja sem þeir setja.

Breytingartillagan er að öllu leyti skýring á réttindum nemenda og ætluð til þess að efla námið og veita betri ramma fyrir það ferli sem nemendur geta dottið í. Þetta eru eldri nemendur sem eru þarna í aðfaranáminu. Það getur orðið truflun á námsferlinum á þeim tíma, jafnvel frekar en á öðrum tímum. Með því að tryggja að gráðunni sé náð er miklu meira frjálsræði í vali nemenda í næstu skrefum, þeir eru ekki bundnir við einn háskóla sem setur þá inn á ákveðna lokaða braut í aðgengi að háskólanámi.

Við mælumst til þess að Alþingi styðji þessa réttindauppfærslu. Að öðru leyti lítur málið vel út.