146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

heilbrigðisáætlun.

57. mál
[19:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir fögnuði, eins og fleiri hér, yfir því að þetta mál skuli vera komið fram, á þennan stað og þetta langt. Ég vil þakka öllum sem að málinu hafa komið fyrir góða og mikla vinnu. Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar var ákall um að koma þessum málum í gott horf. Það vantar töluvert upp á heilbrigðisþjónustuna um allt land, okkur vantar stefnumörkun, okkur vantar greiningar á því hvernig við viljum skilgreina þjónustuna og hvaða þjónusta á að vera hvar. Þegar við tölum um þessi mál erum við að tala um grunnþætti í samfélaginu, þjónustu sem við berum öll miklar væntingar til og gerum eðlilega kröfu um að hafa jafnt aðgengi að.

Markmiðið með þessari tillögu er að vinna að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Við í þingflokki Framsóknarmanna svöruðum því ákalli sem við heyrðum í kosningabaráttunni. Við gengum glöð fram undir forystu hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur og lögðum fram þessa tillögu þar sem við sáum hana hvergi í kortunum hjá stjórnarflokkunum. Við vildum þess vegna leggja okkar af mörkum til að ýta við þessum málum.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er vitnað í skýrslu McKinseys, sem er með ágætisgreiningu. Þar kemur fram að heildarframlög til heilbrigðismála á Íslandi árið 2014 hafi numið 8,8% af vergri landsframleiðslu, sem er nálægt meðaltali OECD-ríkjanna en lægri en annars staðar á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu.

Mat á útgjaldaþörf til heilbrigðismála á Íslandi krefst þess að horft sé til skilvirkni annarra heilbrigðiskerfa og tekið mið af land- og lýðfræðilegum þáttum sem hafa áhrif á þörf landsmanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Ýmsir undirliggjandi þættir eru fyrir hendi á Íslandi sem hafa áhrif á skilvirkni og gæði heilbrigðisþjónustunnar og draga úr útgjaldaþörf til heilbrigðiskerfisins. Aftur á móti er einnig að finna óskilvirka virkni í íslenska heilbrigðiskerfinu sem veldur aukinni útgjaldaþörf. Það kemur allt fram í skýrslunni, en þar kemur líka fram að það eru áhugaverðir tímar í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðiskerfið stóð frammi fyrir miklum erfiðleikum í kjölfar bankahrunsins, eins og menn hafa vikið að hér, þegar fjárframlög til þess voru skert verulega. En okkur tókst að komast í gegnum erfiðleikana og veita áfram gæðaþjónustu.

Þróun á Landspítalanum var að mörgu leyti táknræn fyrir þetta tímabil. Spítalanum tókst að lækka kostnað umtalsvert án þess að fórna gæðum þjónustunnar samhliða aukinni eftirspurn. Það ber að þakka. Þrátt fyrir aðdáunarverða frammistöðu á síðustu árum er ekki allt eins og best verður á kosið í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það skortir skýrari verkaskiptingu milli hinna ýmsu veitenda heilbrigðisþjónustunnar og sömuleiðis stjórntæki sem gera það kleift að stýra þjónustunni. Það held ég sé gríðarlega mikilvægt atriði.

Auk þess hefur í þessari skýrslu verið bent á nokkur kerfislæg vandamál sem takmarka kostnaðarhagkvæmni eða vekja upp spurningar um gæði þjónustunnar á ákveðnum hlutum kerfisins.

Flutningsmenn tillögunnar töldu mikilvægt að fagfólk í heilbrigðisstéttum kæmi að vinnunni, því að það þekkir best til. Gagnlegt er að nýta þekkinguna og mannauðinn sem er fyrir hendi. Við þekkjum það öll hér og gerum okkur öll grein fyrir því að inni í þessu kerfi er mikill mannauður og þekking sem er ómetanlegt. Það er athyglisvert að þeir gestir sem komu fyrir nefndina gagnrýndu helst að lítið samræmi hefði verið haft við fagaðila við gerð áætlunar innan ráðuneytisins. Við þekkjum ýmsa þætti innan heilbrigðiskerfisins, þeir eru ólíkir, þarfirnar eru ólíkar í samfélögunum. Það er eitt að reka stórt sjúkrahús hér á höfuðborgarsvæðinu og annað að reka minni heilbrigðisstofnanir á fámennum svæðum úti á landi og þarfirnar eru ólíkar.

Nefndin vann gríðarlega gott og mikið starf sem ber að þakka. Ég vil ítreka þær þakkir mínar. Breytingarnar bera þess merki að menn hafa farið vel í málin, kafað vel ofan í þau. Í tillögugreininni hljóðar þetta svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að halda áfram vinnu við gerð heilbrigðisáætlunar og leggja hana fyrir Alþingi eins fljótt og mögulegt er. Í áætluninni verði verkferlar innan heilbrigðiskerfisins skýrðir og þar komi fram hvaða aðilar eigi að veita þjónustu innan kerfisins. Skilgreint verði hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítalanum, hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum víða um landið og hvaða þjónustu einkaaðilar eigi að hafa möguleika til að sinna og hvort það sé hagkvæmt og æskilegt. Áætlunin taki tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu án tillits til búsetu verði einnig tryggt með öflugri utanspítalaþjónustu.“

Það held ég að sé gríðarlega mikilvægt. Vísir að þessari þjónustu er til. Það eru læknar sem koma úr Reykjavík, fara reglulega til Akureyrar og sinna þar ákveðnum hópi sjúklinga þannig að sjúklingarnir þurfi ekki að ferðast um langan veg. Það eru til mýmörg dæmi um að konur á barneignaraldri þurfi að fara og leita sér þjónustu hjá kvensjúkdómalæknum. Svo háttaði til fyrir nokkrum árum að átta konur voru á sama degi staddar á Akureyri til að leita sér sömu þjónustunnar. Þá var gerð sú tilraun að læknirinn kæmi á þeirra heimasvæði og var það tengt við aðrar ferðir. Það er ýmislegt svona sem þarf að skoða til að einfalda íbúum þá möguleika að leita sér þjónustu. Það er kostnaðarsamt fyrir fólk að fara til læknis. Fjölskyldur þurfa jafnvel að taka sig upp til að fara til læknis um langan veg. Það þarf að kosta upp á ferðir, gistingu og annað slíkt. Ef við ætlum að tala um jafnrétti til búsetu er þetta klárlega hluti af því.

Svo kemur hér líka fram:

„Jafnframt verði tekið tillit til forvarna, lýðheilsu, íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi og fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða.“

Það er víða gjörbreytt landslag í þessu efni. Með auknum straumi ferðamanna er líka aukið álag á heilbrigðisstofnanirnar úti um landið. Þær þurfa styrkingu. Þessu fólki þurfum við að sinna líkt og við þurfum að sinna íbúum landsins.

Þá stöndum við frammi fyrir því, eins og vikið var að áðan, að sjúkrabílaþjónustan um allt land þarf að vera í lagi. Nú standa Ólafsfirðingar og íbúar í Fjallabyggð frammi fyrir því að þar á að skerða þá þjónustu. Það veldur eðlilega fólki áhyggjum og skerðir verulega alla þjónustu og minnkar öryggistilfinninguna. Þetta er líka mikilvægt mál sem virkilega þarf að huga að.

Í áætluninni kom einnig fram hvort og hvaða sóknarfæri séu að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þar með af álagi af Landspítalanum. Þetta höfum við margoft rætt um hér og margir verið með þar tillögur. Það eru vissulega sjúkrastofnanir úti um landið sem eru tilbúnar til að taka á móti fleira fólki. Við skulum endilega skoða þá möguleika enn þá betur. Ég hef grun um og hef heyrt því fleygt að það sé þegar byrjað að gera það.

Hér kemur líka skýrt fram að við gerð þessarar heilbrigðisáætlunar verði haft samráð við fagfólk víðs vegar að af landinu, helstu hagsmunaaðila og notendur. Það held ég að sé gríðarlega mikið atriði sem við þurfum að fylgja vel eftir af því að fólkið, starfsfólkið, fagfólkið, sem er að vinna úti um landið þekkir þörfina, það veit eftir hverju er verið að kalla. Það getur líka sett fram raunhæfar áætlanir um hvað hægt er að gera og hvers við erum megnug. Ég held að við getum gert svo miklu meira en við gerum núna.

Þá er líka mjög ánægjulegt að sjá að hér er lagt til að velferðarnefnd Alþingis verði reglubundið upplýst um framgang málsins. Það er í okkar hlutverki að fylgja þessu eftir. Við þekkjum ákallið. Við þekkjum óskirnar frá fólkinu. Það er okkar að fylgja því vel eftir.

Um leið og ég lýsi gleði minni yfir því að við skulum vera komin með þetta mál á þennan stað ítreka ég þakkir mínar til hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem var fyrsti flutningsmaður að þessari tillögu, og þakka fyrir alla hennar góðu vinnu. Eins vil ég þakka nefndarmönnum í hv. velferðarnefnd fyrir vel unna og vel ígrundaða vinnu. Gangi okkur öllum vel með þetta.