146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:33]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann forláts hafi ég ekki skýrt skilmerkilega og á réttmætan hátt frá hans skoðunum. Það var alls ekki ætlun mín. Ég hjó einmitt eftir því hvernig hv. þingmaður talaði um útvíkkun bílastæðagjalda en fagna því í það minnsta að hv. þingmaður sé opinn fyrir enn frekari hugmyndum um tekjuöflun. Skattar eru ofbeldi — það er setning sem var mér ofarlega í huga og ég lokaði því eyrunum á röngum stöðum og biðst aftur forláts á því.

Eins og við förum yfir í þessu meirihlutaáliti — fyrirgefið minnihlutaáliti; nú er ég kominn í ríkisstjórn í huganum og farinn að setja á nýjar álögur og byggja upp réttlátt þjóðfélag — verður að horfa heildstætt á þá gjaldtöku sem nokkur samstaða er um að fara þurfi í þegar að ferðaþjónustu kemur. Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður bregst við því að ég nýti tækifærið til að snúa blaðinu við og spyrja hann. Er hann sama sinnis? Telur hann að horfa þurfi heildstætt á ferðaþjónustuna? Horfa á hvaða áhrif hver og ein einasta hugmynd hefur út af fyrir sig en einnig ef hún fer saman við aðrar? Skattahækkun á virðisaukaskatti, gistináttagjald, bílastæðagjöld, allar þessar hugmyndir sem hv. þingmaður fór yfir að hefðu verið uppi og hann myndi forgangsraða á einhverjum lista — telur hv. þingmaður að nauðsynlegt sé að horfa heildstætt á málið?