146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

loftslagsmál.

356. mál
[21:24]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Valgerður Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum, losun loftslagstegunda.

Umhverfis- og samgöngunefnd leggur þetta nefndarálit fram og hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Jónsdóttur og Huga Ólafsson frá umhverfisráðuneyti og Kristínu Lindu Árnadóttur, Sigrúnu Ágústsdóttur, Aðalbjörgu Guttormsdóttur, Sigurrós Friðriksdóttur, Agnar Bragason, Hildu Guðnýju Svavarsdóttur og Guðmund Ingvarsson frá Umhverfisstofnun. Nefndinni barst umsögn um málið frá Umhverfisstofnun.

Frumvarpið er lagt fram til að veita reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins 2015/757 lagastoð, en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar rann frestur til þess út í síðasta mánuði. Efni þess snýst um að bæta nýjum kafla við lög um loftslagsmál sem kveði á um skyldu skipafyrirtækja til að vakta losun koldíoxíðs frá farþega- og flutningaskipum yfir 5.000 brúttótonnum auk þess sem breytingar eru lagðar til á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum um kröfur sem gerðar eru til flugrekenda í 17. og 21. gr. laganna. Nefndin hefur ekki orðið þess áskynja að ágreiningur sé um frumvarpið en bendir þó á athugasemdir Umhverfisstofnunar um orðalag bráðabirgðaákvæðisins í umsögn stofnunarinnar og mælir með að ráðuneytið taki afstöðu til tillagna stofnunarinnar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita Valgerður Gunnarsdóttir, formaður og framsögumaður, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Bryndís Haraldsdóttir, Einar Brynjólfsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Pawel Bartoszek og Teitur Björn Einarsson.