146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

landmælingar og grunnkortagerð.

389. mál
[21:26]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að kynna nefndarálit um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð, nr. 103/2006, með síðari breytingum, landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga.

Það er umhverfis- og samgöngunefnd sem stendur að þessu nefndaráliti.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Ingvarsson frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Nefndinni hafa borist umsagnir um málið frá Alta ehf., Byggðastofnun, Landmælingum Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun, Ríkiskaupum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samsýn ehf. og Þjóðskrá Íslands.

Frumvarpið miðar að því að öll gögn um landupplýsingar, sem keypt eru fyrir opinbert fé, verði gerð aðgengileg og gjaldfrjáls. Er frumvarpinu þannig ætlað að stuðla að auknu samstarfi um notkun slíkra gagna, m.a. milli ríkis og sveitarfélaga, og hámarka þannig nýtingu opinbers fjár og koma í veg fyrir tvíverknað á borð við magninnkaup á gögnum. Þá er afnumin sú skylda samkvæmt núgildandi lögum að Landmælingar Íslands miðli landupplýsingum í mælikvarðanum 1:50.000 og lagt til að stofnunin geti miðlað landupplýsingum með þeirri nákvæmni sem nauðsynleg er hverju sinni.

Umsagnaraðilar nefndarinnar eru almennt jákvæðir í garð frumvarpsins og mæla með því að það nái fram að ganga. Tekur nefndin undir það og telur að frumvarpið sé til þess fallið að bæta lagaumhverfi landmælinga og grunnkortagerðar með því að stuðla að auknu og auðveldara aðgengi að nákvæmari og betri gögnum, bættu samstarfi milli opinberra aðila sem og að aukinni nýsköpun á almennum markaði. Nefndin styður því að málið nái fram að ganga og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta rita Valgerður Gunnarsdóttir, formaður, Kolbeinn Óttarsson Proppé, framsögumaður, Bryndís Haraldsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Einar Brynjólfsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Pawel Bartoszek og Teitur Björn Einarsson.