146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:29]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002, þar sem bætt verði við nýrri málsgrein sem snýr að tálmun, þ.e. þegar foreldri sem barn býr hjá tálmar hinu foreldrinu eða öðrum sem eiga umgengnisrétt samkvæmt úrskurði lögmætra yfirvalda, dómi eða dómsátt foreldra eða samningi þeirra staðfestum af sýslumanni að neyta umgengnisréttar, eða takmarkar hann.

Samkvæmt barnaverndarlögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga börn rétt á að umgangast báða foreldra sína. Í 46. gr. barnaverndarlaga er sérstaklega tekið fram að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá og þegar foreldrar búa ekki saman hvílir sú skylda á báðum að grípa til þeirra ráðstafana sem við verði komið til að tryggja að þessi réttur sé virtur. Mikilvægast er að barnið á þennan rétt.

Í núgildandi lögum er andlegt ofbeldi og andleg vanræksla gagnvart barni og hagsmunum þess refsivert. Það eru viðurlög við því. Það er talið hluti af barnavernd að barnið sé ekki vanrækt andlega eða líkamlega. Ég hef alltaf talið að tálmun, þ.e. þegar foreldri sem hefur forsjá yfir barni tálmar hinu foreldrinu að neyta umgengnisréttar, sé vanræksla. Það er alveg í samræmi við gildandi barnaverndarlög, barnið á þennan rétt og það er talið mikilvægt fyrir velferð barnsins að það fái að umgangast báða foreldra. Það er því í lögum talið mikilvægt, í gildandi lögum, að börn fái að njóta þessa réttar, það er mikilvægt fyrir velferð þess til framtíðar.

Þessi mál hafa kannski ekki verið mikið skoðuð hér, en þau hafa verið skoðuð víða annars staðar. Niðurstaðan er almennt sú að það geti verið mjög þungbært, sem kannski liggur í hlutarins eðli, ef barnið er svipt öðru foreldrinu.

Ástæða þess að þetta frumvarp er samið og lagt fram er sú að núverandi 98. gr. barnaverndarlaga hefur ekki verið beitt þegar þessar tálmanir hafa verið fyrir hendi. Þess vegna er talið nauðsynlegt að það sé einfaldlega sérstakt ákvæði til að tryggja að þessi vanræksla gagnvart börnunum verði meðhöndluð eins og hver önnur vanræksla. Það hefur verið látið viðgangast hér árum saman, að forsjárforeldrið, hafi það tekið ákvörðun um að svipta barnið þessum rétti, hefur komist upp með það. Að vísu er gert ráð fyrir ákveðinni meðferð þessara mála hjá sýslumönnum, þ.e. að hægt er að láta reyna á aðför, beita dagsektum. Þegar kemur að því að beitt sé slíkum úrræðum er í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að barnið komist í einhverja umgengni, en það er hægt að taka hana strax aftur og nýtt mál byrjar bara á núllpunkti. Þannig að í raun og veru er engin vernd fyrir börnin þegar tálmun er beitt í núverandi lagaumhverfi. Því er nauðsynlegt að bregðast við þessu með sérstöku og pósitífu ákvæði um að þetta sé vanræksla, þetta sé brot gagnvart barninu og eigi auðvitað að meðhöndla eins og önnur brot gegn börnum, þ.e. beitt er úrræði barnaverndarlaga. Það getur verið með ýmsum hætti, það getur byrjað eins og í flestum málum sem snúa að vernd og réttindum barna á því að reynt sé að fá viðkomandi foreldri til að láta af þessari háttsemi. Sé það ekki gert sé hægt að beita öðrum úrræðum eins og tímabundinni sviptingu forsjár, hugsanlega á endanum sviptingu forsjár. En ef hins vegar brotin eru ítrekuð og foreldrar láta sér ekki segjast er hér auðvitað ákvæði þar sem viðkomandi getur þurft að þola refsiábyrgð, eins og í öllum öðrum brotum gagnvart börnum.

Hér er ekki verið að gera neitt annað en að reyna að tryggja að börn fari ekki á mis við þá umgengni sem gagnast barninu best og undirstrikað að tálmun og takmörkun á umgengni er brot á forsjárskyldu foreldris. Því er mikilvægt að tekið sé á slíkum brotum sem eru mjög mörg og hafa verið áratugum saman mjög mörg, við erum að tala um tugi mála á ári og jafnvel hundruð mála sem hafa verið í gangi um slíkar tálmanir og takmarkanir. Hér er eingöngu verið að reyna að tryggja rétt barnanna, tryggja velferð þeirra með sama hætti og önnur brot sem snúa að vanrækslu.

Það hefur komið fram hér í umræðu að þetta frumvarp sé aðför að mæðrum þessa lands, sem ég verð að segja að er mjög sérstök umræða. Hér er ekkert verið að kynbinda eitt né neitt. Hér er einfaldlega verið að segja að það foreldrið sem brýtur af sér — það kann að vera og er líklegt, ég er nokkuð viss um það, að mæður séu í talsverðum meiri hluta hvað þetta varðar. Það þarf ekki að vera það endilega til framtíðar en er sjálfsagt þannig núna. En þetta er mikilvægt mál og líklegt til að hafa talsvert forvarnagildi þannig að viðkomandi foreldri sé ljós skyldan, réttindi barnsins og hvaða áhrif þetta getur haft á velferð þess. Sinni fólk ekki þessum skyldum séu viðurlög við því eins og öllum öðrum brotum. Það er ekki verið að gera neinn greinarmun hvað það varðar.

Að lokum legg ég til að málið fari til allsherjarnefndar.

(Forseti (JÞÓ): Og 2. umr.)

Og 2. umr.