146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í meðalhóf við þessa lagasetningu. Eins og við vitum, þegar setja á refsiákvæði, þarf alltaf að gæta meðalhófs. Þegar við erum að tala um jafn viðkvæm mál og forræði barna og jafnvel fangelsun foreldra fyrir tálmun spyr ég mig hvort ekki sé viturlegra að beita vægari úrræðum en fangelsisvist. Því ef réttur barnsins til að umgangast báða foreldra sína ætti að vera virtur hjálpum við varla þeim rétti með því að setja annað foreldrið í fangelsi. Ég vil því spyrja hv. þingmann út í orð sem er að finna í greinargerð frumvarpsins sem hér er rætt þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að barnaverndaryfirvöld geti í þessum málum sem öðrum sem varða mikla hagsmuni barns gripið til annarra úrræða samkvæmt barnaverndarlögum, svo sem tímabundinnar vistunar utan heimilis eða sviptingu forsjár þess sem gerist brotlegur, sé brot alvarlegt eða ítrekað og ekki farið að tilmælum um úrbætur.“

Gæti hann skýrt aðeins hvernig, með þessu eina ákvæði, þetta á einnig við?