146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Tölurnar sem ræddar voru hér í andsvörum áðan ríma ágætlega við þær tölur sem fram koma í viðtali við umboðsmann barna. Það sem er áhugavert við þær tölur er einmitt fjöldi mála sem lýkur með samningum. Það er greinilega þar sem vandamálið er. Við þurfum að vera duglegri í að klára og flýta þeirri meðferð þannig að fólk þurfi ekki að bíða í einhverri óvissu í samningsferlinu sem við vitum að getur tekið langan tíma. Þar er vandamálið sem við þurfum að leysa. Þar eru þegar lagastoðir til að nota. Við þurfum bara að vera betri í að nýta það sem þegar er til. Það er ekki langt síðan þessi lög voru uppfærð.

Í lagafrumvarpi þessu er lögð til sú breyting á barnaverndarlögum að refsingu verði beitt gegn þeim foreldrum sem tálmi eða takmarki aðgang að barni. Þar er lagt til að refsingin verði fangelsi allt að fimm árum. Í lögum er hvergi skilgreint hvað hugtakið tálmun þýði en almennt hefur verið miðað við að tálmun sé þegar foreldri kemur í veg fyrir að barn fái að njóta umgengnisréttar við hitt foreldrið, til dæmis með því að halda barni í læstri íbúð þegar það á að sækja það, fara með barn af heimili þegar umgengni á að hefjast eða koma ekki með barn á þann stað þar sem að afhenda á barnið.

Í 1. gr. barnaverndarlaga segir, með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.“

Grunnhugsunin um börn í íslenskum lögum verður alltaf að vera sú að tryggja velferð barna og að réttindi þeirra séu virt.

Í 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir, með leyfi forseta:

„Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.“

Í greinargerð með frumvarpi þessu segir að það sé andleg vanræksla að svipta barnið rétti til að umgangast báða foreldra. Þar segir með leyfi forseta:

„Ótal rannsóknir sýna að barni, sem er svipt þeim möguleika að eiga samskipti við foreldri, getur orðið það mjög tilfinningalega og andlega þungbært til framtíðar …“

Í þessum orðum felst gríðarleg þversögn og eins í efni frumvarpsins. Með fangelsisvistun eru möguleikar barns á umgengni við það foreldri sem fangelsað er auðvitað takmarkaðir. Burt séð hvort það er foreldri sem sætir refsingu, hafði umgengnisrétt eða var forsjáraðili barns, er augljóst að í fangaklefa eða öðrum vistunarúrræðum getur foreldri ekki veitt barni sínu það umhverfi sem það þarf til að njóta eðlilegs og góðs uppeldis. Refsing sú sem hér er lögð til geti því ekki einungis verið þungbær fyrir það foreldri sem sætir henni heldur einnig fyrir barnið. Það hlýtur að vera barni þungbært að þurfa að þola það að annað foreldrið skuli dæmt til refsingar og það getur ekki annað en haft neikvæð áhrif á uppeldisumhverfi þess.

Í reynd er það svo að þegar foreldri tálmar umgengni barns er það í mörgum tilfellum forsjáraðili barnsins. Hvernig getur það verið barninu fyrir bestu ef forsjáraðili þess er dæmdur til fangelsisvistar? Þetta getur verið gríðarlega viðkvæmt mál fyrir barnið. Það getur haft ýmsar afleiðingar fyrir það hverjum barnið kennir um að forsjárforeldri þess sé komið í fangelsi, og getur jafnvel kennt sjálfu sér þar um.

Þær lausnir sem við ræðum hér verða að vera til þess fallnar að bæta hagi barnsins. Vandamál þetta verður ekki leyst með refsingum heldur með bættri aðstoð og eftirliti. Ekki með refsingum. Ekki er um að ræða líkamlegt ofbeldi eins og rassskellingar eða þaðan af verra. Jú, þetta er mjög erfitt ástand, það vita það allir, en að hafa þann möguleika að annað foreldrið geti, eins og hv. þingmaður orðaði það — þetta gæti haft forvarnargildi. Ef afleiðingin af þessu frumvarpi verður sú að eitt barn lendir í höndum ofbeldisaðila vegna hræðslu eða hótana um fangelsi vegna þess að ofbeldisforeldrið notar ákvæðið til þess að þvinga forsjárforeldrið til að koma á umgengni, þá er það þessu frumvarpi að kenna.

Í núgildandi barnaverndarlögum, nánar tiltekið 2. mgr. 46. gr., er kveðið á um skyldu foreldris til að rækja umgengni við barn sitt. Í greinargerð með þeirri grein kemur fram að ekki komi til álita að mati nefndarinnar að leggja til að upp verði tekin þvingunarúrræði til að koma á umgengni þegar svo háttar að foreldri sinnir ekki skyldu sinni til umgengni við barn. Nefndinni sé ekki kunnugt um að í löggjöf annarra þjóða finnist slík úrræði og að ætla megi að flestir geti verið sammála um að verulega megi draga í efa að umgengni sem komið er á gegn vilja foreldris, sem barn býr ekki hjá, með beinum þvingunarúrræðum, sé barni til góðs.

Tálmanir og takmarkanir á umgengni við barn eru vissulega alvarlegt vandamál. Það er gríðarlega mikilvægt verkefni að koma í veg fyrir þær enda geta þær haft mjög skaðleg áhrif á uppeldi barns sem lifir við slíkar gjörðir foreldris. En þessi leið getur ekki verið sú rétta. Tölurnar sýna það líka sem vitnað var í hérna áðan. Vandamálið er að fjöldi mála er í samningaleiðinni, hversu langt samningaferlið getur verið. Þar eru erfiðu málin. Væntanlega kæmi aldrei til fangelsunar fyrr en sú leið er ekki lengur fær. Í þessum níu málum á yfir níu ára tímabil, eitt mál á ári, hvers vegna ætti foreldri … (BN: Þetta er ekki þannig, þið vitið betur.) Samkvæmt upplýsingum sem við fáum frá umboðsmanni barna ríma þessar tölur sem voru hafðar hér frammi áðan mjög vel við þá umsögn. Ég hlakka til að sjá umsögn umboðsmanns um þetta. Það getur ekki verið rétt að henda foreldri í fangelsi fyrir tálmun. Það eru aðrar leiðir sem er tiltölulega nýbúið að koma á með lögum. Það vantar að styrkja þær leiðir og gera betur á þeim vettvangi. Það er samningaleiðin sem við verðum að leggja áherslu á, að minnsta kosti fyrst, og sjá hvernig gengur þar áður en við förum út í jafn alvarlegar aðgerðir og að henda foreldri í fangelsi.