146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:40]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fer eins og margir aðrir hér í kvöld alltaf að ræða þessa refsingu, fimm ára fangelsi, að henda mæðrum inn í fangelsi, henda fólki í fangelsi. Ég vil þá spyrja hv. þingmann, eins og ég hef spurt aðra hér: Telur þingmaðurinn að þetta sé brot gegn barni, þetta sé vanræksla af hálfu forsjárforeldrisins, að svipta það umgengni, hitt foreldrið? Ef svarið er já, — ég heyri að flestir segja já, en svo kemur alltaf: en það má ekki henda neinum í fangelsi. Ef svarið er já er þetta sett bara með sama hætti inn í lögin og ákvæði sem fyrir er um andlega vanrækslu.

Það er í núgildandi lögum að andleg vanræksla gagnvart barni varðar fangelsi allt að fimm árum.

Ef við erum sammála því að umgengnistálmanir, sem eru ágætlega útskýrðar í greinargerðinni, meira að segja er þó nokkuð stór málsgrein um hvað í því felst, séu brot gegn barni og hafi slæm áhrif á velferð þess til lengri tíma, hlýtur auðvitað að vera sama viðurlagaákvæði við því eins og öðrum vanrækslubrotum. Ég skil ekki hvað er svona flókið við það.

Þetta þýðir ekki, frekar en í öðrum vanrækslubrotum, að hér sé mæðrum eða foreldrum bara kastað inn í fangelsi, eins og haldið er fram. Það er bara verið að gera þetta með skýrum hætti, brot gegn barni.

Þegar búið er að gera það, þegar búið er að segja A, verður að hafa viðurlagaákvæði.