146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

416. mál
[23:23]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 549, um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum, og varðar endurgreiðslu og niðurfellingu lána. Frumvarp sama efnis hefur endurtekið verið lagt fram á undanförnum þingum, fyrst af hv. þm. Lilju Mósesdóttur o.fl. á 139. löggjafarþingi, og í tvígang eftir það og þá af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur í þrígang, síðast á 145. löggjafarþingi. Flutningsmenn þessa frumvarps auk framsögumanns eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir og Logi Einarsson.

Sögu opinberrar námsaðstoðar á Íslandi má rekja aftur til áranna 1911–1912 þegar Háskóli Íslands var stofnaður. Fyrstu árin var um að ræða lága styrki sem ríkið veitti án mikillar umgjarðar, en frá árinu 1928 var farið að veita námslán í gegnum lánasjóð stúdenta við Háskóla Íslands.

Árið 1952 lagði Stúdentaráð Háskóla Íslands fram beiðni til ríkisstjórnar landsins um að veitt yrði ríkisframlag til lánasjóðsins. Var orðið við þeirri beiðni með stofnun nýs lánasjóðs stúdenta. Lög voru sett um stofnun hins nýja sjóðs og honum tryggð ríkisframlög. Með lögum nr. 52/1961 var Lánasjóði íslenskra námsmanna komið á laggirnar. Árið 1976 voru enn sett ný lög um námslán og námsstyrki, nr. 57/1976. Enn voru sett ný lög um námslán og námsstyrki, nr. 72/1982. Með lögunum voru gerðar tvær grundvallarbreytingar á námslánum. Sú fyrri fól í sér að færa skyldi veitt námslán úr 85% af framfærsluþörf í 100% í nokkrum skrefum. Hin síðari sneri að útreikningi endurgreiðslna námslána með það að markmiði að færa endurgreiðsluhlutfallið úr 66% í 88%.

Með lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, voru gerðar róttækar breytingar sem m.a. miðuðu að því að lánstíminn var ekki lengur miðaður við tiltekinn árafjölda, sem var 40 ár, heldur féllu lánin ekki niður og skyldu því greiðast að fullu. Þær breytingar sem um ræðir í þessu frumvarpi eru í fjórum greinum og ná til 6. gr., 7. gr. og 11. gr. laga nr. 21/1992. Í fyrsta lagi er lagt til að við 7. mgr. 6. gr. laganna bætist þrír nýir málsliðir, svohljóðandi:

Ábyrgð ábyrgðarmanns fellur niður þegar hann nær 67 ára aldri enda sé lánþegi í fullum skilum við sjóðinn. Hafi vanskil ábyrgðartryggðrar kröfu stofnast innan þriggja almanaksára á undan því ári er ábyrgðarmaður nær 67 ára aldri er þó heimilt að afskrifa og fella niður þá fjárhæð ábyrgðarinnar sem eftir stæði hefði skuldari verið í fullum skilum. Við fráfall ábyrgðarmanns falla niður ábyrgðir á þeim lánum sem hann hefur gengist í fyrir lántakanda.

Í öðru lagi er lagt til að 3. mgr. 7. gr. laganna orðist svo:

Greitt skal af námsláni samkvæmt 8. gr. þar til skuldin er að fullu greidd eða lánþegi fellur frá. Þó skal heimilt að fella niður eftirstöðvar skuldabréfs, að hluta eða í heild, vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara. Ráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd og skilyrði slíkrar niðurfellingar. Þá skulu námslán ætíð falla niður á því ári er skuldari nær 67 ára aldri enda sé hann í fullum skilum við sjóðinn og hafi tekið lánið fyrir 54 ára aldur. Hafi vanskil stofnast innan þriggja almanaksára á undan því ári er skuldari nær 67 ára aldri er þó heimilt að afskrifa og fella niður þá fjárhæð skuldarinnar sem eftir stæði hefði skuldari verið í fullum skilum.

Í þriðja lagi er lagt til að 11. gr. laganna orðist svo:

Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga, samanber þó 3. mgr. 7. gr.

Í fjórða lagi er svo gert ráð fyrir að lög þessi öðlist þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða er skotið inn í frumvarp þetta þess efnis að skuldarar sem þegar hafa náð 67 ára aldri við gildistöku laga þessara skuli fá niðurfelldar eftirstöðvar námslána sinna eins og staða þeirra er við gildistöku.

Í greinargerð með frumvarpi þessu er drepið á helstu efnisatriði, rökstuðning og skýringar. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi endurgreiðslu námslána samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og lagt til að úrræði fyrir tiltekin jaðartilvik við endurgreiðslu námslána verði lögfest. Lagt er til að fest verði í lög sú meginregla að greitt skuli af námsláni þar til skuldin er að fullu greidd eða fram að þeim tíma er lánþegi fellur frá. Lánasjóðurinn hefur unnið út frá því að afskrifa skuldabréf þegar lánþegi fellur frá en með þessu frumvarpi er sú regla lögfest.

Þá er gert ráð fyrir undantekningum frá framangreindri meginreglu á þann hátt að í tilteknum tilfellum verði heimilt að fella námslán niður að hluta eða í heild áður en lán er að fullu greitt. Er þar ekki átt við niðurfellingu eða frestun á árlegum afborgunum, eins og fjallað er um í 8. gr. laganna, heldur er um að ræða almennar niðurfellingar eða afskriftir á skuldabréfum sem standa að baki námslánum. Þau tilfelli sem hér um ræðir eru annars vegar þegar skuldari á við langvarandi veikindi að stríða, fötlun eða mikla örorku sem áhrif hefur á greiðsluhæfni hans til langframa, og hins vegar tilfelli þar sem skuldari námsláns hefur náð 67 ára aldri án þess að hafa náð að greiða að fullu niður námslán sitt.

Í frumvarpinu er lagt til að við fráfall ábyrgðarmanns falli niður þær ábyrgðaryfirlýsingar sem hann hefur gefið. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna voru í maí 2016 30 lán í innheimtu þar sem erfingjar eða dánarbú greiddu af námslánum. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum er um að ræða mál þar sem aðilar hafa gengist við ábyrgð og samið um uppgjör. Ekki er að öðru leyti haldið utan um upplýsingar um þau lán þar sem erfingjar eða dánarbú eru greiðendur.

Verði frumvarp þetta að lögum verður um mikla réttarbót að ræða fyrir skuldara námslána.

Meginreglan sem felst í frumvarpinu nær einungis til þeirra sem enn standa í skuld við sjóðinn við upphaf þess árs er þeir ná 67 ára aldri. Njóta þeir sem greitt hafa upp lán sín fyrir þann tíma ekki hagræðis af þessari breytingu, en í ákvæði til bráðabirgða er tekið á tilfellum þar sem skuldari er eldri en 67 ára og er enn að greiða námslán sitt. Þar sem árleg endurgreiðsla námslána er miðuð við heildartekjur viðkomandi einstaklings má ætla að tekjuhærri einstaklingar hafi náð að borga stærstan hluta eða allt lán sitt. Sú breyting sem frumvarpið mælir fyrir um nær því fyrst og fremst til tekjulægri einstaklinga sem og þeirra sem hafa verið lengi í námi. Fram til ársins 1982 var endurgreiðslutími námslána að hámarki 20 ár. Það tímabil var tvöfaldað í 40 ár með lögum nr. 72/1982, og með lögum nr. 21/1992 varð lánstíminn ótakmarkaður og skyldu lánin greiðast upp að fullu en falla þó niður við andlát lántaka eins og að framan er greint.

Hér á landi hefur þróunin orðið sú að námsskuldir fylgja einstaklingum lengra og lengra fram eftir aldri. Í tengslum við kjarakönnun fyrir árið 2013 kannaði BHM stöðu félagsmanna sinna gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þar kom ýmislegt fróðlegt í ljós, m.a. að konur greiða lán sín hægar upp en karlar enda laun þeirra almennt lægri og endurgreiðslur tekjutengdar. Fjárhæðir lána eru hins vegar ámóta hjá báðum kynjum. Svör úr könnuninni benda til þess að 22% svarenda verði enn að greiða af námslánum þegar eftirlaunaaldri er náð. Með þessu frumvarpi er lagt til að námslán falli niður við 67 ára aldur, enda er þá heimilt að sækja um ellilífeyri og tengdar greiðslur til Tryggingastofnunar ríkisins.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu og vænti þess að frumvarp þetta fái jákvæða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og fari síðan til 2. umr. og 3. umr. og fái um síðir staðfestingu Alþingis sem lög að undangenginni vandaðri, þinglegri meðferð.