146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum loks að ræða Brexit hér í þingsal, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og áhrif þess á framtíðarsamband Íslands og Bretlands, enda hef ég óskað eftir þeirri umræðu frá því í janúar sl.

Okkur er öllum ljóst að útganga Breta úr Evrópusambandinu eru ein allra stærstu tíðindi í alþjóðastjórnmálum síðustu misserin. Nú, næstum ári síðar, er rétt að fá að vita hvað íslensk stjórnvöld hafa gert í því að leggja grunn að framtíðarsamskiptum við Breta í framhaldi af útgöngu þeirra úr ESB. Til að árétta það er ég fyllilega meðvituð um að engir samningar eru komnir af stað enda staðfesti hæstv. utanríkisráðherra það í þingsal þann 4. maí sl.

Brexit er eitt af allra mikilvægustu viðfangsefnum í íslensku utanríkisstefnunni um þessar mundir og það staðfestir stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar. Þar segir um utanríkismál, með leyfi forseta:

„Sérstakan gaum þarf að gefa mögulegri úrsögn Bretlands úr sambandinu.“

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkisstefnu Íslands er áréttað að Brexit sé eitt af helstu verkefnum okkar næstu árin. Þá er rétt að fá að vita nánar um það hér í þingsal hver sýn og stefna ríkisstjórnarinnar er varðandi Brexit og hvað Ísland hefur gert á því tæpa ári sem liðið er frá því að Bretar kusu að ganga úr Evrópusambandinu.

Hvað hafa íslensk stjórnvöld gert varðandi þessi samskipti? Við hverja hefur verið talað innan bresku stjórnsýslunnar? Hverjir hafa séð um þau samskipti að hálfu Íslands? Hefur mikilvægi málsins alls verið lyft á forsætisráðherraplan? Hafa forsætisráðherrar landanna beggja hist vegna Brexit? Ekki eftir því sem ég hef séð og engar áætlanir þar um.

Ef stefnan er að ná sérsamningi við Bretland, hvaða málefni vill íslenska ríkisstjórnin þá leggja áherslu á? Þann 6. mars sl. sagði hæstv. utanríkisráðherra orðrétt hér í þinginu, með leyfi forseta:

„Það liggur alveg fyrir að Íslendingar starfa með öðrum EFTA-ríkjum að því sem snýr að útgöngu Breta úr ESB.“

Er það markmið íslensku ríkisstjórnarinnar að einbeita sér að tvíhliða fríverslunarsamningi við Bretland eða marghliða samningi gegnum EFTA eða í samvinnu við önnur lönd á borð við Norðurlöndin? Ef markmiðið er að gera marghliða samning í gegnum EFTA, hvaða samskipti hafa átt sér stað? Og á hvaða hagsmuni ætlar íslenska ríkisstjórnin að leggja áherslu?

Við hljótum öll að vera sammála um að það er gríðarlega mikilvægt að standa vörð um hagsmuni okkar í sjávarútvegi þegar viðræður eru í gangi við Breta enda er Bretland eitt mikilvægasta viðskiptaland okkar fyrir sjávarafurðir.

Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkisstefnu Íslands er lögð áhersla á það að meginmarkmið Íslands sé að gæta að aðgangi íslenskra fyrirtækja að breskum mörkuðum og væntingar viðraðar um enn betri aðgang að þeim eftir Brexit en áður.

Virðulegi forseti. Þetta hefur mér þótt veruleg bjartsýni og því er illa svarað á hverju þessi mikla bjartsýni er byggð. Því miður verð ég að segja að allt er varðar Brexit, sérstaklega í skýrslu ráðherrans um utanríkismál, er almennt orðað og frekar loðið. Ég hef ákveðinn skilning á því enda eiga Bretar sjálfir fullt í fangi með að halda utan um þennan nýja veruleika sinn í Evrópusamstarfinu og öll breska stjórnsýslan er nánast undirlögð undir Brexit og undirbúning hinnar formlegu útgöngu.

Ég vil líka halda því til haga að við leggjum áherslu á aðra hluti en fisk og sjávarútveg í samræðum okkar við Breta eins og hver framtíðarsamskiptin eigi að vera á sviði menntunarmöguleika, menningarsamskipta, ferðaþjónustu og flugsamgangna og atvinnuréttinda Íslendinga í Bretlandi og réttinda íslenskra námsmanna í Bretlandi.

Að mínu mati verður líka að koma fram hver framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er, bæði í tengslum við Brexit og óháð því, á hagsmunagæslu okkar og samskipti við Evrópusambandið. Ætlum við til að mynda að feta í fótspor Dana og styrkja aðra markaði ef leiðirnar til Bretlands skyldu þrengjast? Hefur verið mörkuð stefna um það og tekin ákvörðun um það af hæstv. ráðherra? Áhugavert væri að vita hvort sú vinna hefur farið fram.

Ég hlakka til þess að heyra nánar um sýn, áherslu og stefnu hæstv. ráðherra þegar kemur að Brexit og samskiptum Íslendinga við Breta þar að lútandi; hver sú sýn og stefna er. Ég vil að lokum leggja áherslu á nauðsyn þess að þingið sé reglulega upplýst um framvinduna í hvers kyns viðræðum eða samskiptum við Breta um framtíðarskipulagið og samvinnuna.