146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu brýna máli, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ég tek það fram í upphafi ræðu minnar að Brexit er forgangsmál í utanríkisráðuneytinu og raunar víðar í stjórnkerfinu. Hér er um afar stórt, víðfeðmt og þýðingarmikið hagsmunamál að ræða

Í okkar huga munu næstu misseri snúast um skýrt markmið: Að tryggja sambærileg eða betri viðskiptakjör við Bretland eftir Brexit en þau sem við njótum á grundvelli evrópskra samninga. Hið sama á við um réttindi íslenskra ríkisborgara í Bretlandi. Við Íslendingar ráðum auðvitað ekki för í þessu efni. Við ráðum ekki því hvernig viðskilnaði Breta við Evrópusambandið verður háttað, en við getum haft áhrif. Einmitt þess vegna hef ég síðustu mánuði lagt allt kapp á að eiga viðræður við þá aðila sem að þessum málum koma. Ég hef rætt þessi mál við utanríkisráðherra allra EFTA-ríkjanna. Ég hef átt fundi við utanríkismálastjóra ESB, Federica Mogherini, og Brexit-stjóra ESB, Michel Barnier, auk þess sem ég hef rætt þessi mál ítarlega við utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel. Þá átti ég fyrir skemmstu fundi með utanríkisráðherra Breta, Boris Johnson, sem og þeim ráðherrum sem sjá um Brexit-málin þar, þeim David Jones og Greg Hands. Skilaboð ríkisstjórnar Íslands á öllum þessum fundum hafa verið skýr: Við hvetjum til þess að Evrópusambandið og Bretland nái góðum samningum sín á milli þar sem áfram verður byggt á fríverslun og samstarfi á sem flestum sviðum. Það er öllum í hag, ekki síst aðildarríkjum Evrópusambandsins sem eiga mjög mikið undir útflutningi Bretlands. Það verður enginn sigurvegari ef það verða viðskiptaþvinganir eða hindranir á milli landa í Evrópu. Það verða einungis taparar.

Auðvitað blasa við margvísleg úrlausnarefni. Það er engum vafa undirorpið að um er að ræða miklar áskoranir í ákveðnum efnum en í þessari stöðu felast líka tækifæri. Þau verða ekki nýtt með því að sitja og bíða þess sem verða vill. Innan stjórnsýslunnar hefur á síðustu mánuðum verið unnið hörðum höndum að því að kortleggja hagsmuni okkar með tilliti til útgöngu Breta. Þótt enn sé það tiltölulega skammt á veg komið í ferlinu er líklegt að niðurstaða samninga Breta og ESB verði fríverslunarsamningur af nýrri kynslóð slíkra samninga. Það er ekki loku fyrir það skotið að EES-samningurinn verði með einhverjum hætti sniðmát að samskiptum Breta og ESB.

Allt of snemmt er þó að spá um það. Hitt er skýrt að íslensk stjórnvöld hafa lagt fram nokkrar sviðsmyndir. Í fyrsta lagi að Ísland og Bretar semji sín á milli um djúpan og víðfeðman efnahags- og samstarfssamning sem undirstriki náin tengsl okkar á öllum sviðum. Þá er einnig vissulega möguleiki á því að EFTA-ríkin geri slíkan samning við Breta í sameiningu. Þriðja leiðin væri að samningur EES/EFTA-ríkjanna tæki mið af samningi ESB og Breta. Hugsanleg aðild Breta að EFTA er að sjálfsögðu einnig fær leið og er þá aðild þeirra og aðkoma að fríverslunarneti EFTA raunhæf leið. Öðru máli kann að gegna um EES og er mikilvægt að greina þar skýrt á milli, þ.e. á milli EFTA og EES.

Aðaláherslan er að koma í veg fyrir röskun viðskipta og halda áunnum réttindum borgara og fyrirtækja. Gerðum EES-samningi hefur þannig verið skipt upp milli einstakra ráðuneyta og þau beðin um að gera grein fyrir mikilvægi þeirra og hvernig unnt væri að sinna hagsmunum með tvíhliða samkomulagi. Þeirri rýni er nú að ljúka og þegar lokagreining liggur fyrir munum við eiga samráð um það við atvinnulífið og að sjálfsögðu hv. utanríkismálanefnd.

Ég vil undirstrika hversu mikilvægt það er að aðilar atvinnulífsins standi þétt með stjórnvöldum í þessu mikilvæga máli.

Hvað tiltekna hagsmuni varðar, án þess að hægt sé að fara í tæmandi umfjöllun, tel ég að Ísland og Bretland eigi ríka samleið. Það væri í beggja þágu að aflétta tollum. Vonir mínar standa til þess að hægt verði að koma í veg fyrir aukna tollheimtu og jafnvel liðka fyrir markaðsaðgangi. Einnig verður að teljast líklegt að markaðsaðgangur iðnvarnings haldist óbreyttur enda þurfa Bretar að reiða sig á innflutning slíkra vara til framleiðslu á eigin útflutningsvörum.

Þó svo að aðgangur okkar að Evrópumarkaði fyrir sjávarafurðir sé greiður eru fullir tollar innheimtir, t.d. á vissar afurðir af laxi, makríl, síld, humri og hörpudiski. Enn fremur njóta ýmsar aðrar afurðir sem skipta okkur máli einungis takmarkaðra tollaívilnana. Mér finnst eðlilegt að stefna að fullri fríverslun með fisk í framtíðarviðskiptum við Bretland.

Bretar njóta nú þegar fulls tollfrelsis fyrir iðnvarning og sjávarafurðir. Langflestar landbúnaðarafurðir eru á engum eða óverulegum tollum, en viðskiptahindranir eru einkum þegar kemur að kjöti og mjólkurafurðum. Þá er mikilvægt að okkar öflugu þjónustufyrirtæki geti áfram stundað starfsemi sína í Bretlandi og því verður mikilvægt að semja um áframhaldandi viðskiptafrelsi fyrir þjónustu og tryggja tengd réttindi út frá þeim ramma sem við höfum í dag. Loftferðafrelsi vegna millilandaflugs er eitt þeirra atriða sem þarf að vera í algerum forgangi.

Annað mikilvægt mál eru réttindi íslenskra borgara í Bretlandi. Þeir eru vel á þriðja þúsund talsins. Það er að sjálfsögðu forgangsmál að það verði þannig áfram.

Ég vil líka upplýsa þingið um að ráðamenn ESB hyggjast upplýsa og eiga samráð við EES/EFTA-ríkin með reglubundnum hætti um framvindu samninga ESB og Bretlands. Það má líka nefna í þessu sambandi að bæði Michel Barnier og Boris Johnson hafa lýst yfir áhuga á að koma hingað til lands til samráðsfunda um þessi mál.

Ég vil að endingu ítreka þakkir til málshefjanda fyrir að sýna þessu mikilvæga máli áhuga. Fyrirhugaður er fundur í utanríkismálanefnd þar sem ég mun gera ítarlega grein fyrir stöðu málsins og fara sérstaklega yfir einstaka þætti þess. Það er vilji minn að eiga náið og gott samráð við þingið um þetta (Forseti hringir.) mjög svo mikilvæga hagsmunamál okkar Íslendinga.