146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:46]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka frummælanda, hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, fyrir að hefja umræður um þetta mikilvæga mál í dag. Ég er hrædd um að ef hún hefði beint spurningum til mín hefði hún fengið dálítið önnur svör en þau sem hæstv. ráðherra veitti henni, en það er kannski ekki að furða, enda erum við hæstv. ráðherra ekki í sama flokki. Hæstv. ráðherra er í flokki sem talar fyrir áframhaldandi aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES en ég er í Viðreisn sem er galopin fyrir því að kanna og kynna fyrir landsmönnum þá kosti sem fylgja fullri aðild að ESB, og leyfa þjóðinni síðan sjálfri að velja hvað hún vill gera í þeim efnum.

Mér skildist á hæstv. ráðherra í umræðunum í þinginu um skýrslu ráðherra fyrir skemmstu að samningaviðræður væru ekki hafnar við Breta um helstu hagsmunamál Íslands. Við höfum verið upplýst í þinginu um að greiningarvinna sé hafin og tæpti hæstv. ráðherra á því áðan hvernig best væri að standa að þeim viðræðum, ef ég hef skilið hann rétt. Ég fagna því að sjálfsögðu að ráðherra ætli að halda áfram að eiga þetta góða samstarf og samráð við utanríkismálanefnd og að hann ætli sé að kynna þá greiningarvinnu sem stendur yfir um áhrif Brexit á Ísland og íslenska hagsmuni.

Mig langar að nýta tækifærið hér í dag og spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða væntingar hefur ráðherra um samning við Breta eftir Brexit? Hvaða væntingar hefur hann um það sem við getum náð umfram það sem við höfum nú í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?