146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:50]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Eðlilega hefur þessi umræða mest snúist um hvernig skuli haga samningum við Breta eftir Brexit, sóknarfæri og veikleika. Það skiptir máli að okkur takist vel upp þar og við verjum hagsmuni okkar við breyttar aðstæður. Mig langar að viðra aðrar hliðar málsins. Ef maður tekur nú enn eina hallærislegu líkinguna úr íþróttaheiminum þá má segja að knattspyrnumarkmenn séu tvenns konar: Það eru þeir sem standa á marklínunni og bíða þess sem verða vill og verja svo af bestu getu. Þetta eru þægilegir andstæðingar fyrir miðherja. Oft eru þeir þó uppáhald áhorfenda, fá á sig mörg skot og geta stundum varist ævintýralega. Svo eru til markmenn sem eru virkari þátttakendur í leiknum, spila framar og grípa fyrr inn í aðstæður. Auðvitað er hætta á einstaka gönuhlaupi en ef vel er spilað má forða mörgum skotum á markið. Við Íslendingar þurfum einfaldlega að fara að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig við ætlum að haga utanríkismálum okkar, koma okkur í aðstöðu til að vera virkir þátttakendur, eða ætlum við kannski að spila aftar og bregðast bara alltaf við því sem gerist jafnóðum?

Niðurstaða Brexit-kosninganna var líka þannig að ungt fólk og sérstaklega konur kusu áfram að vera í ESB. Það er leiðinlegt að hugsa til þess að unga fólkið missi af þeim tækifærum sem opin alþjóðasamskipti veita og átakanlegt að eldra fólkið og þá ekki síst eldri karlar, sem hingað til hafa verið forréttindahópur í samfélaginu, skuli mögulega hindra það. Það er öruggt, herra forseti, að áhersla á beint lýðræði mun aukast stórkostlega í framtíðinni. Þetta ætti því að brýna okkur til að virkja enn frekar ungt fólk og sérstaklega konur til að láta til sín taka í þjóðmálum og gefa þeim sannarlega vettvang til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.