146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:52]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa sagt að þetta er gríðarlega mikilvæg umræða sem við eigum hér um Brexit, þ.e. hvaða áhrif útganga Breta úr Evrópusambandinu hefur og stöðu Íslands í því.

Mig langar að fagna því sérstaklega sem hæstv. utanríkisráðherra sagði og hefur raunar sagt áður um að hann vilji eiga gott samtal og upplýsa hv. utanríkismálanefnd sem og Alþingi um það sem hér er að gerast. Ég held að það sé afar mikilvægt að því verði haldið áfram og að það verði.

Það sem truflar mig svolítið í þessari umræðu allri og er kannski að einhverju leyti óumflýjanlegt er að það er svo mikið af orðum, það er svo margt sagt, en maður veit í rauninni ekki alveg hvað býr að baki eða hvað verður. Það er auðvitað gott og mikilvægt að gera sem bestan samning fyrir Ísland, en ég held að það sé engu að síður á sama tíma mjög mikilvægt að við séum meðvituð um hina dökku sviðsmynd sem hv. þm. Smári McCarthy dró hér upp áðan og hvernig efnahagsstaðan í Bretlandi getur orðið, að við séum alltaf með báða fætur á jörðinni hvað það varðar. Þetta getur orðið efnahagslega mjög erfitt fyrir Breta og þar með líka okkur Íslendinga vegna þess að viðskipti okkar við Bretland eru svo mikil og svo mikilvæg. Þetta verðum við alltaf að hafa í huga.

Að lokum langar mig að taka undir það sem hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði að það sé mikilvægt að leggja áhersluna á fleira en fisk og kannski jafnvel fleira en viðskipti, því þetta snýst um samskipti þjóðanna á öðrum sviðum.

Svo vil ég að lokum biðja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra aðeins að útskýra orð sín um fríverslunarsamning af nýrri kynslóð slíkra (Forseti hringir.) samninga við ESB. Hvað þýða þau orð?