146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[10:59]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Herra forseti. Það er kannski rétt að árétta í ræðustól Alþingis að það skiptir máli að ólíkum sjónarmiðum ólíkra flokka með ólíka sýn sé haldið á lofti í þingsal. Til þess erum við kjörin og aðeins þannig virkar lýðræðið. Að sjálfsögðu virði ég hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisstefnu landsins og hún er mjög vel sett fram í stjórnarsáttmála. En hún á ekki að hamla málfrelsi og skoðanafrelsi þingmanna sé það sett fram á málefnalegan hátt.

Mig langar í seinni ræðu minni að koma aðeins inn á þær áskoranir sem felast í Brexit sem komið er inn á í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál sem kynnt var á þinginu fyrir skemmstu. Þar er rætt um þá staðreynd að EFTA-ríkin eru ósamstiga hvað varðar Brexit og samningaviðræður við Breta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að hægt verði að finna sameiginlegan flöt með öðrum EFTA-ríkjum í samningaviðræðum við Breta, þótt ekki væri nema um aðgreinda eða sértæka þætti, og ef svo er hvaða þættir það kynnu að vera. Einnig er í skýrslunni komið inn á áskoranir þegar kemur að því að semja um flugsamgöngur, sem er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur. Mig langar að inna ráðherra eftir því hvort greiningarvinna hafi leitt í ljós vísbendingar um að við náum að tryggja sambærilega samninga og við höfum nú.

Varðandi þá íslensku ríkisborgara sem búa eða nema í Bretlandi eða hafa áhuga á því í framtíðinni, og ég myndi telja að það verði áskorun að tryggja þá hagsmuni: Hefur einhver vinna farið fram sem snýr að því að byrja að tryggja þá hagsmuni? Eru einhverjar vísbendingar sem ráðherra getur upplýst okkur um um það hvernig þær viðræður munu fara?

Makríllinn er annað stórt hagsmunamál fyrir okkur. Í skýrslunni segir beinlínis að ekki sé víst að fjölgun samningsaðila muni einfalda viðræðurnar sem fram til þessa hafi reynst flóknar. Þarna er aukið flækjustig, því er ekki að neita, fyrir Ísland. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér að unnið verði úr þeirri áskorun. Þarna eru miklir hagsmunir (Forseti hringir.) og mig langar að spyrja ráðherra hvort hann sjái fyrir sér að í þessu felist tækifæri (Forseti hringir.) umfram það sem við höfum nú í gegnum samningana við Evrópusambandið.