146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[11:02]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða sýni hversu mikilvægt er að þingheimur sé mjög vel inni í þessum málaflokki vegna þess að það eru svo margir snertifletir. Ég fagna líka því innleggi sem kemur frá mörgum þingmönnum, þetta snýr ekki einungis að viðskiptum heldur líka að menntamálum og aukinni samvinnu og þeirri samvinnu sem þessi ríki eiga í. Þess vegna er svo afskaplega mikilvægt að við séum vel búin undir þennan málaflokk.

Ég ætla aðeins að koma inn á það sem formaður utanríkismálanefndar nefndi. Að sjálfsögðu er málfrelsi hér. Auðvitað eigum við að skiptast á skoðunum. En hins vegar er það nú svo að ef maður kynnir einhverja stefnu í aðdraganda kosninga, til að mynda þann áhuga og vilja að ganga í Evrópusambandið, ef engin af þeim markmiðum nást í því samkomulagi sem viðkomandi flokkur gerir, kallast það (Gripið fram í.) á einfaldri (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) … virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er rosaleg viðkvæmni hérna. Þingmenn Viðreisnar koma hingað og leyfa ekki viðkomandi þingmanni að klára mál sitt. Það sýnir að maður snertir við einhverjum afskaplega viðkvæmum bletti. Það er auðvitað ekki nógu gott fyrir hv. þingmenn Viðreisnar. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Get ég fengið að klára mál mitt? (Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Forseti hvetur þingmenn til að gefa ræðumanni gott hljóð.)

Það sem er líklega svolítið sárt er að þetta kallast á einfaldri íslensku kosningasvik. Kosningasvik. (Gripið fram í: Hættu nú alveg.) Ja hérna.

Nema hvað. Aðalatriðið er að Ísland sé undir Brexit vel búið. Við þurfum að einblína á það. Ég verð að segja að mér líkar vel að heyra hvernig utanríkisráðherra miðlar upplýsingum til þingsins um framgang málsins. Við þurfum að standa sameinuð varðandi þennan stóra málaflokk og ekki missa okkur í einhver smáatriði hvað þetta varðar.