146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[11:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu hefur valdið óróleika í samfélögum álfunnar. Úrsögnin var umdeild heima fyrir, Skotar og Norður-Írar andvígir og úrsögnin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu með litlum mun. Margir telja að fylgismenn úrsagnar hafi greitt atkvæði á hæpnum forsendum, sem fórnarlömb einhliða málatilbúnaðar, að orðræðan hafi verið með svipuðu lagi og andstæðingar umræðunnar hér um fulla og formlega aðild Íslands að samfélagi Evrópuþjóða beita; sleggjudómum, stóryrðum, fordómum og yfirborðskenndum hræðsluáróðri. Gleymum því ekki að engin ein aðgerð á vettvangi stjórnmálanna á síðari tímum hefur skilað almenningi á Íslandi jafn mikilli velsæld, framförum og kjarabótum og aðildin fyrir 25 árum. Þótt blikur séu á lofti nú er það í aðra röndina grátbroslegt, eða eigum við að segja glettni örlaganna, að áhyggjur og alvöruþrunginn málflutningur þeirra sem voru rammir andstæðingar þessarar aðildar snýst nú um það hvernig við getum best varið okkar dýrmæta ávinning þegar eitt af grónum aðildarríkjum segir skilið við þetta þjóðhættulega samstarf sem það þótti vera á sinni tíð. Þessi afstaða er bara jákvæð. Góð fyrir venjulegt fólk á Íslandi.

Það er ekki auðvelt, virðulegi forseti, að skilja ástæður Breta fyrir úrsögn, sem eru þó kannski í bland þær að þeir hafa í gegnum tíðina hagað sér eins og fíll í glervörubúð í samskiptum við eigin þegna í eigin landi, m.a. samveldislöndunum og öðrum nátengdum löndum, og hafa ekki enn náð tökum á að eiga eðlileg milliríkjasamskipti á jafningjagrunni. En niðurstaðan er þessi og við sem trúum á að frjáls og opin samskipti á milli þjóða skili okkur aukinni hagsæld eins og sannast hefur hörmum Brexit. Tengsl okkar við Bretland eru mjög sterk og hagsmunirnir verulegir, bæði viðskiptalegir og menningarlegir. Því er eðlilegt og brýnt að við stöndum vaktina og grandskoðum hvernig við getum sem best viðhaldið góðum tengslum þrátt fyrir að Bretar hafi farið svona að ráði sínu.