146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

svar við fyrirspurn.

[11:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þann 3. maí sl. var fyrirspurn minni til forsætisráðherra, um upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla, dreift á Alþingi. Samkvæmt þingsköpum skal miða að því að ráðherra svari eigi síðar en tveimur vikum eftir að fyrirspurn er dreift. Síðastliðinn mánudag mættu ráðherrar til að svara fyrirspurnum þingmanna og ég bjóst við að þar myndi forsætisráðherra mæta, enda var það innan tveggja vikna frestsins. Ég var spurður hvort ég myndi mæta með fyrirspurnina sem ég hafði borið fram og var að sjálfsögðu tilbúinn til að gera það en forsætisráðherra hætti við.

Nú er fresturinn liðinn og ég gæti alveg fyrirgefið það ef forsætisráðherra myndi mæta í dag til að svara fyrirspurn minni en hér er enginn forsætisráðherra, þótt hann verði hérna eftir hádegi. Hér er heldur engin beiðni um frest til að svara. Það er heldur engin ástæða til að veita frest því að spurningin er ekki flókin og ég hef meira að segja spurt forsætisráðherra sömu spurningar áður, hann bara svaraði ekki í það skiptið og þess vegna spyr ég aftur.

Virðulegi forseti. Ég býst við að forsætisráðherra verði gert að mæta í þingsal til að svara fyrirspurnum sem að honum er beint.