146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

frádráttarbær ferðakostnaður.

159. mál
[11:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgöngu- og byggðamálaráðherra fyrir mjög skýr svör. Ég fagna því að þetta sé ein af þeim aðgerðum sem lögð er áhersla á í þeirri byggðaáætlun sem mun koma fram. Hæstv. ráðherra talar um að þar sé m.a. horft á byggðakort ESA og að við munum jafnvel vinna að okkar eigin byggðakorti og með sterkari aðgerðum til þessara einangruðu svæða.

Mig langar samt að spyrja hæstv. byggðamálaráðherra um svæði í nágrenni höfuðborgarinnar, ég vil taka sem dæmi Akranes. Þar sækja um 2 þús. manns í 7 þús. manna byggðarlagi vinnu eða skóla til höfuðborgarsvæðisins. Undanfarin mörg ár, það eru að verða 20 ár, hafa þeir borgað veggjöld og það er óánægja með veggjöldin vegna þess að það koma engar mótvægisaðgerðir á móti. Kemur til greina hjá hæstv. byggðamálaráðherra að skoða hvort það sé möguleiki á einhverjum skattafslætti vegna kostnaðar við að komast til og frá vinnu í byggðarlögum í nágrenni höfuðborgarinnar, hvort hægt sé að koma með aðgerðir á móti veggjöldum og hvort það sé verið að skoða einhverja leið í þeim efnum? Annars vil ég þakka hæstv. byggðamálaráðherra fyrir svörin sem hann veitti í þessari umræðu.