146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

frádráttarbær ferðakostnaður.

159. mál
[11:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við horfum á þetta mál ekki kannski endilega með mjög sterkum nærsýnisgleraugum. Við þurfum að horfa á heildarsviðsmyndina í þessu, ég held að það sé mikilvægt. Ég skil stöðuna, t.d. á Akranesi. Á því svæði hefur reyndar átt sér stað á undanförnum árum gríðarlega mikil uppbygging í atvinnu. Þetta er það svæði þar sem vöxturinn hefur verið kannski hvað mestur hlutfallslega á landinu í fjölgun íbúa. Þeir hafa mjög sterkt atvinnusvæði á Grundartanga og víðar sem hefur skapað góð störf, traust og vel launuð störf. Mér finnst sjálfsagt að skoða þetta. Ég held að það hljóti að koma inn í þær hugmyndir sem við erum að láta skoða almennt gagnvart veggjöldum.

Nú er staðan þannig að búið verður að borga Hvalfjarðargöngin um mitt næsta ár. Reiknað er með að ríkið eða þjóðin fái þau þá til endanlegrar eignar. Þá þurfum við auðvitað að meta það og verið er að skoða, eins og fólk þekkir, að fara í frekari framkvæmdir tengdar gjaldtöku á fleiri en þeirri leið. Að öðrum kosti fyndist mér að hætta ætti gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum nema það sé þá merkt einhverjum sérstökum viðbótarframkvæmdum.

Ég held að við hljótum að skoða það síðan í öllum slíkum gjaldtökuhugmyndum að það sé einhver verulegur meiri ávinningur af þeim framkvæmdum fyrir þá sem ferðast reglulega um slík gjaldhlið, þannig að það verði sparnaður á ferðatíma, eldsneytiskostnaður sem vegur upp á móti a.m.k. þeim kostnaði sem fólk verður fyrir. Þar erum við að skoða margar útfærslur og leiðir sem koma út úr (Forseti hringir.) vinnu nefndarinnar í byrjun sumars. Við munum nota sumarið til þess að vinna með þær og sjá hvort við getum (Forseti hringir.) kynnt fyrir þinginu frekari tillögur.