146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Alexandersflugvöllur.

179. mál
[11:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst full ástæða til að endurskoða það hvort ríkið eigi að styrkja innanlandsflug til Alexandersflugvallar sem ekki hefur verið flogið á í nokkur ár. Forsendur hafa breyst. Við erum með þennan mikla ferðamannafjölda, hátt á þriðju milljón í ár, og ef ekki er framboð kemur ekki í ljós hver eftirspurnin er. Þannig eru markaðslögmálin. Þarna liggja miklar fjárfestingar undir og eru kannski að drabbast niður. Alltaf verður dýrara og dýrara að endurræsa flugvöll eins og Alexandersflugvöll. Mér finnst að það eigi að leyfa því að njóta vafans og gera tilraun til ákveðins tíma og sjá hvernig það kemur út. Ég held að full ástæða sé til þess. Þetta er ein leið til að dreifa ferðamönnum um landið, að nýta þær fjárfestingar sem við höfum, og þörf er fyrir varaflugvöll eins og komið var inn á.

Þessir flugvellir — ég vil líka nefna Þingeyrarflugvöll — hafa verið látnir drabbast niður og menn verða að fara að taka sig á í þessum efnum.