146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Alexandersflugvöllur.

179. mál
[11:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég tek jákvætt í þau orð hæstv. ráðherra að hafin sé skoðun á innanlandsfluginu almennt og að vinna eigi að því að gera það að raunhæfum valkosti þegar kemur að almenningssamgöngum fyrir dreifðari byggðir landsins.

Að mínu mati hefur umræðan um fyrirkomulag innanlandsflugs allt of lengi verið föst í hjólförum sem snúa að flugvelli í Vatnsmýri eða ekki. Á meðan höfum við látið flugvelli víða um land drabbast niður og ekki sinnt þeim nægilega og ekki verið með nægilega góða stefnu í þeim málum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í orð hans áðan, þegar hann kom inn á það að með breyttu rekstrarfyrirkomulagi flugvalla væri mögulega hægt að fara hina svokölluðu skosku leið. Hvað á hæstv. ráðherra við þegar hann talar um breytt rekstrarfyrirkomulag á innanlandsflugvöllum?