146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Alexandersflugvöllur.

179. mál
[11:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ég vil jafnframt taka undir orð hv. þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni að það er mikilvægt að endurskoða innanlandsflugið og styrkja það því að við erum ekki með sömu forsendur núna og við vorum árið 2013. Við vitum öll að það hefur orðið gríðarleg aukning í ferðamannastraumi til landsins og okkur vantar tæki og betri samgöngur í flugi og á landi til þess að dreifa ferðamönnum betur um landið.

Ég vil jafnframt spyrja hæstv. samgönguráðherra þess sama og hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé spurði: Hvað á hann við með breyttu rekstrarfyrirkomulagi innanlandsflugs? Það er mjög mikilvægt að við hér á þingi fáum upplýsingar um hvað það er. Og ég tek undir undir orð hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur hvort ekki sé tímabært að fara í tilraun til að athuga hvort innanlandsflug m.a. á Alexandersflugvöll geti staðið undir sér.

Ég tel mjög mikilvægt að unnið sé að stefnumótun í ferðaþjónustunni. Ég tel og við hv. þingmenn Framsóknarflokksins að ef við setjum á komugjöld sem verði hærri í Keflavík, lægri inn á Egilsstaði og Akureyri, yrði það hvati fyrir flugfélög að lenda þar. Þau þurfa auðvitað að horfa í rekstri sínum í hin ýmsu gjöld.

Við þurfum að vinna að öflugri þjónustu í flugmálum, standa vörð um flug hingað til Reykjavíkur og landsbyggðina um leið. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans.