146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Alexandersflugvöllur.

179. mál
[11:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmönnum að forsendur hafa mikið breyst í samgöngumálum almennt vegna aukins straums ferðamanna til landsins á undanförnum árum. Það er auðvitað eitthvað sem við verðum að taka tillit til og skoða hvort það geti styrkt grundvöll innanlandsflugs, ekki bara til Sauðárkróks heldur annars staðar á landinu einnig.

Innanlandsflug er þjóðhagslega hagkvæmt. Það hefur verið skoðað. Það er því hagkvæmt að efla innanlandsflugið fyrir utan að það breytir auðvitað mjög lífsskilyrðum, getum við sagt, úti á landi að geta flogið og rekið erindi sín fram og til baka á sama degi. Það er einmitt það sem þetta snýst um, að tíðnin sé þannig að hún þjóni þörfum heimafólks og atvinnulífs á þessum stöðum.

Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé spyr mig hér að því, og fleiri reyndar, hverjar þær breytingar eru í rekstri innanlandsflugvalla sem ég kom inn á í framsögu minni. Ég nefndi að það væri verið að skoða svokallaða skoska leið, reyndar er verið að skoða einnig norsku útfærsluna. Þetta eru leiðir sem þessar þjóðir hafa farið með ágætisárangri sem breyta svolítið rekstri bæði flugvallanna og innanlandsflugsins í heild. Þetta byggir á því að íbúar á þessum svæðum eigi greiðari aðgang og innanlandsflug verði raunhæfari valkostur fyrir þá. Það getur þýtt að þeir styrkir sem hið opinbera setur í þetta í dag og koma fyrst og fremst að rekstri flugvallanna sjálfra verði færðir til íbúanna og það verði þá greidd bara eðlileg gjöld til þess að reka þessa flugvelli við þá lendingu. Það þýðir eins og ég sagði áðan að flugfar getur hækkað eitthvað til annarra aðila sem sjaldnar nota þennan ferðamáta.

Hvort það sé tímabært að gera tilraun? Já, ég tel að það sé tímabært að gera tilraun (Forseti hringir.) í sjálfu sér, en ég tel að við þurfum að undirbyggja það mjög vel þannig að það sem lagt er upp með sé mjög raunhæft, (Forseti hringir.) við göngum út frá forsendum þannig að von sé til þess að þetta geti gengið en gerum ekki tilraun sem rennur svo kannski (Forseti hringir.) út í vaskinn og málið sé dautt.