146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

viðurkenning erlendra ökuréttinda.

300. mál
[11:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hreyfir við máli sem er þó nokkuð til umræðu og ástæða að líta til. Ef ég fer í gegnum þær spurningar sem lagðar voru fyrir eru svörin þessi:

Já, erlendir ferðamenn mega aka þeim ökutækjum sem gild þjóðarskírteini þeirra heimil. Á grundvelli skírteina sem gefin eru út í ríki utan EES-svæðisins má þó ekki aka ökutækjum í atvinnuskyni hér á landi. Gerð er krafa um að skírteinið sé með latneskum bókstöfum eins og kom fram hjá hv. þingmanni. Sé það ekki raunin þarf skírteini að fylgja þýðing á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku. Viðkomandi þarf síðan að uppfylla aldursákvæði þau er hér gilda.

Um þær reglur sem gilda í þeim tilfellum þegar ökuréttindi eru veitt af öðru ríki en á EES-svæðinu vísa ég til míns fyrra svars.

Á Íslandi gilda síðan svipaðar reglur um ökuskírteini sem gefið er út í ríki sem er ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Slíkt skírteini veitir handhafanum rétt til að stjórna sömu ökutækjum hér á landi og það heimilar að stjórna í útgáfulandinu. Skírteinið gildir í allt að einn mánuð eftir að skilyrðum um fasta búsetu er fullnægt. Það sama á við um fólk sem hingað kemur sem ferðamenn og dvelur í skemmri tíma.

Hvort sambærilegar reglur eru í gildi um íslensk ökuskírteini í öðrum ríkjum fer eftir því hvaða reglur viðkomandi ríki hefur sett sér.

Ökutækjaleigur annast útleigu skráningarskyldra ökutækja. Þeim er heimilt að leigja ökutækið öðrum en þeim sem hafa réttindi til að stjórna ökutækinu sem leigja á. Þeim er þó heimilt að gera leigusamning við aðila sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi en hann þarf þá að tilnefna ökumann skriflega sem má aka ökutækinu. Sá ökumaður þarf þá að uppfylla framangreind skilyrði.

Reglur um viðurkenningu erlendra ökuréttinda til aksturs hér á landi eru í samræmi við gildandi reglur annars staðar á Norðurlöndunum. Skoða mætti hvort gera ætti kröfu um framvísun alþjóðlegs ökuskírteinis ásamt þjóðarskírteini þegar skírteinið er gefið út af ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins. Alþjóðlegt ökuskírteini er fyrst og fremst stöðluð þýðing á þjóðarskírteini. Erlendis hefur verið mikið af fölsuðum alþjóðlegum ökuskírteinum í umferð og því má efast um að slík krafa auki eitthvað á öryggi.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á, það er vaxandi hætta af þessari þungu umferð í samgöngukerfi okkar og einmitt hafa verið nefnd dæmi um útlendinga sem stoppa bara í vegkanti og fara að skoða hesta eða annað í náttúrunni sem vekur athygli þeirra.

Þjóðvegakerfið ber keim af þeim sparnaði sem gripið var til eftir hrun. Við getum tekið sem dæmi vegmerkingar sem hefur verið ákaflega ábótavant á undanförnum árum. Við tökum eftir því ef við ökum um þjóðvegi landsins að þar eru víða strikaðar brotnar línur í vegkantana þar sem ætti að vera heil lína. Þetta var gert í sparnaðarskyni. Þetta segir útlendingum sem eru á ferðinni að það sé óhætt að stoppa þar. Svo komum við og bölsótumst út í þá en þeir telja sig fara að reglum, þessir ferðamenn sem heimsækja okkur.

Við jukum framlög til Vegagerðarinnar í viðhaldsþáttinn úr 5,8 milljörðum á síðasta ári í 8,1 milljarð á þessu ári. Þess mun sjá stað víða í sumar í umferðarmerkingum sem eru mjög stórt öryggisatriði í umferðinni. Það er alveg ljóst að við þurfum að leggja áherslu á umferðaröryggi. Þar sem við höfum stigið stór skref, eins og t.d. bara í tvöföldun Reykjanesbrautarinnar á kafla, hefur dregið umtalsvert úr öllum umferðarslysum. Á þessum kafla var til að mynda algengast að yrðu banaslys í vegakerfinu okkar. Þar hefur ekki orðið banaslys frá því að sá vegur var tvöfaldaður. Þetta segir okkur einfaldlega að með alvöruuppbyggingu í samgöngukerfinu, vegakerfi okkar, er hægt að takast á við þetta krefjandi verkefni af mikilli alvöru. Sennilega er fátt eins þjóðhagslega hagkvæmt og að draga úr slysum í umferðinni og bæta samgöngur. Það er einmitt á þessum forsendum sem við höfum sett í gang þessa vinnu, sem hefur verið nokkuð umtöluð og jafnframt umdeild, við að hefja átak á grundvelli einhvers konar gjaldtöku þar sem ekki síst yrði horft til þess mikla ferðamannastraums sem er orðinn um þjóðvegakerfið, að hann taki þátt í því með okkur að byggja upp þjóðvegakerfið, gera alvöruátak í þágu okkar allra og taka þannig vonandi mjög góðan skerf af þeim mikla kostnaði sem augljóslega fylgir slíkum framkvæmdum.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að muna að við erum 340 þús. manna þjóð sem býr í 103 þús. ferkílómetra landi. (Forseti hringir.) Það er dýrt að byggja upp innviði í svo stóru landi. Við höfum náð ótrúlegum árangri og getum borið okkur saman við Dani sem eru tæpar 6 milljónir. Þeir eru að byggja upp innviðakerfi í landi sem er álíka stórt og Suðurkjördæmi er hér.