146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

diplómanám þroskahamlaðra í myndlist o.fl.

475. mál
[11:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Í 24. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem fjallar um menntun, segir m.a., með leyfi forseta:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu, í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri, koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og símenntun sem miða að því:

a. að auka mannlega getu til fulls og tilfinningu fyrir meðfæddri göfgi og eigin verðleikum og auka virðingu fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni,

b. að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

c. að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í frjálsu þjóðfélagi.“

Alþingi samþykkti í september sl. að fullgilda þennan samning. Í ljósi þess hefur Myndlistarskólinn í Reykjavík boðið menntamálaráðuneytinu til áframhaldandi samstarfs um kennslu á námsbraut í diplómanámi í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun. Það má geta þess hæstv. ráðherra til upplýsingar að á morgun er einmitt útskrift 12 nemenda sem eru að ljúka námi á þessari námsbraut og líka að í tilboði og erindi Myndlistarskólans í Reykjavík til ráðuneytisins, dagsettu 17. febrúar 2017, kemur fram að kostnaðurinn fyrir hvern nemanda er innan við 250 þúsund krónur á önn. Þetta er leið sem breytir lífi fólks, leið sem gefur fólki með þroskahömlun tækifæri til að nýta sína hæfileika. Eins og sagði í viðurkenningu sem námsbrautin hlaut, Múrbrjótinn, á vef Þroskahjálpar á árinu 2015 segir þar, með leyfi forseta:

Viðurkenningin er veitt vegna þess „framlags sem í því felst í þágu jafnra tækifæra til náms og listsköpunar.“

„Námsbrautin er innlegg í að bæta stöðu listafólks með þroskahömlun og gefa fólki færi á að rækta hæfileika sína í faglegu námsumhverfi.“

Við erum að tala um að halda þessari námsbraut gangandi fyrir 6 milljónir króna á ári.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Verður Myndlistarskólanum í Reykjavík tryggt fé til að halda þessu diplómanámi úti áfram?

Í öðru lagi: Sér ráðherra fyrir sér breytingar á hlutverki símenntunar og þekkingarmiðstöðvarinnar Fjölmenntar þegar þjónustusamningur um rekstur hennar rennur út um næstu áramót?

Í þriðja lagi: Hver er skoðun ráðherra á gildi símenntunar fyrir fatlað fólk og hvernig telur ráðherrann að standa eigi að sí- og endurmenntun fatlaðra með tilliti til fjármögnunar og framkvæmdar?