146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

diplómanám þroskahamlaðra í myndlist o.fl.

475. mál
[12:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað. Hún er í grunninn þannig að allir sem hér hafa tjáð sig hafa fullan hug á því að leggja þessu máli lið. Ég fagna því. Ég bendi hv. fyrirspyrjanda á það að áður en ráðherrann axlar sína ábyrgð verður hann að taka tillit til fleiri þátta, hann verður að hafa fullvissu fyrir því að hafa fjármagn til þeirra aðgerða sem grípa þarf til.

Það er hárrétt að stefnumörkun liggur í grófustu myndinni fyrir, í samningnum um réttindi fatlaðra, sem við höfum staðfest, sem betur fer. En eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði snýst þetta líka um að að tryggja fleiri einstaklingum þátttöku í þessu en þeim sem heyra til þessum eina skóla. Jafnræðið verður að gilda fyrir alla. Þess vegna nefndi ég það hér í inngangi að engin stefnumörkun eða þarfagreining liggur fyrir um það hvernig við ættum að bregðast við þessu á landsvísu. Ég bendi á að samningurinn við Myndlistarskólann rennur út á næsta ári. Það er ekkert einfaldur hlutur fyrir ráðuneytið að bæta við slíkan samning, án rökstuðnings annars en þess sem komið hefur fram, einhverjum ótilteknum fjármunum. Ég nefni það bara af því að hér kom hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson og sagði að þetta væri ekki spursmál um form heldur vilja. Að mörgu leyti er það rétt, en alls ekki að öllu leyti. Það er fleira undir en vilji þess sem hér stendur eða einstakra þingmanna. Við verðum að byggja það sem við erum að gera og grundvalla á heimild í lögum og regluverki sem fyrir liggur. Það er sjálfsögð krafa sem þarf að beita alls staðar.

Ég þakka umræðuna og þann mikla vilja sem fram kemur í þá veru að leysa og greiða úr þessum þætti. Ég heiti því að reyna að beita mér fyrir því að skynsamleg niðurstaða náist, hver svo sem hún kann að verða.