146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:01]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Sannleikurinn getur verið erfiður. Þannig er það oft, en við verðum að horfast í augu við það frekar en að sópa sannleikanum undir teppið. Hér fyrir helgi beitti meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar aflsmunum til að taka frumvarp um verslun með áfengi og tóbak úr nefndinni þrátt fyrir að ekki lægju fyrir umsagnir velferðarnefndar, fjárlaganefndar eða Hagfræðistofnunar, sem við í nefndinni höfðum óskað eftir. Þetta blindflug meiri hluta nefndarinnar snýst mögulega um það að sópa undir teppið sannleikanum, gagnrýnisröddunum, sem benda á neikvæð áhrif á lýðheilsu, sem benda á áhrif á ríkisbúskapinn og sem benda á neikvæð þjóðhagsleg áhrif af því að opna fyrir sölu áfengis í verslunum. Það er ólíðandi, frú forseti, að mál séu tekin úr nefnd án þess að um þau hafi verið fjallað.