146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð meiri hlutans í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta eru einfaldlega forkastanleg vinnubrögð sem meiri hlutinn hefur sýnt. Fyrir helgi var áfengisfrumvarpið svokallaða einfaldlega rifið út úr allsherjar- og menntamálanefnd eftir að meira að segja flutningsmennirnir sjálfir höfðu gefið málinu falleinkunn. Stuttu fyrir fund voru nefndarmönnum sendar breytingartillögur. Við höfðum engan tíma til þess að kynna okkur jafn viðamiklar breytingartillögur og flutningsmenn lögðu þarna til. Það var ekki orðið við óskum okkar um að fá umsagnir frá velferðarnefnd eða fjárlaganefnd, en við vitum að nefndirnar hafa verið að undirbúa umsagnir. Við vorum ekki heldur komin með skrifleg svör frá forseta sjálfum um það hvort hægt væri að verða við beiðni okkar um að Hagfræðistofnun myndi fara yfir (Forseti hringir.) þjóðhagsleg og samfélagsleg áhrif af frumvarpinu.

Ég ítreka það sem ég sagði, þetta eru einfaldlega forkastanleg vinnubrögð. Hér hefur meiri hlutinn svo sannarlega sýnt sitt rétta andlit. Yfirgangur og valdníðsla. Ekkert annað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)