146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:08]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það kemur kannski ekki á óvart að ríkisstjórnin og þingmenn hennar sýni sitt rétta andlit. Það verður að halda því til haga að það er ekki svo mikið að breytast. Hér stendur enn til að leggja Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins niður. Það á að selja dreifinguna og hagnaðurinn á að fara í hendur fjármagnseigenda. Það er bara verið að fara bakdyramegin, finna sér leið áleiðis og slá ryki í augu fólks um að hér sé farin einhver mildari leið. Hverjir verða það sem reisa sérverslanir, sem hér á að heimila? Það verða auðvitað þeir sem eru allra stærstir og eru búnir að sanka að sér leyfum nú þegar og bíða eftir því að fá að selja brennivín. Það er alveg ljóst. Forseti sagði fyrir ekki svo löngu að mál sem yrðu afgreidd úr nefnd eftir tiltekinn tíma kæmust ekki á þingdagskrána. Ég treysti því svo sannarlega að það verði svo um þetta mál.