146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég á ekki sæti í allsherjar- og menntamálanefnd og fylgdist ekki með umræðum þar. Það sem mér virðist hins vegar hafa gerst og vekja þessi sterku viðbrögð er það að meiri hluti nefndarinnar hefur tekið tillit til helstu athugasemda sem fram komu við þetta frumvarp. Frumvarpið var gagnrýnt vikum saman í þinginu fyrir það að það væri algjör ósvinna að setja áfengissölu í almennar verslanir. Breytingartillögurnar sem hér eru á borðinu gera ráð fyrir að svo verði ekki heldur að áfengi verði selt í sérverslunum. Með öðrum orðum er það mikla hneyksli sem hér er talað um fólgið í því að flutningsmenn og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hafa tekið tillit til helstu athugasemda sem fram hafa komið við frumvarpið sem er um að ræða. Það er auðvitað dálítið vandlifað ef ekki er hægt að koma til móts við þær athugasemdir sem fram koma við meðferð máls í þinginu öðruvísi en að það sé kallað ofbeldi og hneyksli.