146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er með ólíkindum að þessi ríkisstjórn ætli að gera brennivínsmálið að sínu forgangsmáli í þinginu í vor. Það þarf enginn að segja mér að meiri hluti nefndarinnar hafi gert þetta án vilja ráðherra, að þetta sé vilji þeirra að nú skuli koma brennivíninu í hendur einkaaðila með öllum ráðum. Og leggja málið svona fram, gerbreytt, til að reyna að hella einhverju sírópi í það, eins og sumir ráðherrar eða hv. þingmenn tala um, er með ólíkindum. Eins og menn sjái ekki í gegnum þessa vitleysu. Það er bara verið að koma þessu í hendur einkaaðila, stórra aðila eins og Haga og fleiri, sem ríkisstjórnin virðist brenna fyrir að þjóna. Það er bara ekki boðlegt. 70% landsmanna eru á móti þessu máli. Öll lýðheilsurök leggjast gegn því, landlæknir, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. En áfram skal reynt að troða þessu máli með smjöri og kartöflum ofan í landslýð sama hvað tautar og raular. (Forseti hringir.) Það er ekki boðlegt.